141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

breyting á lögum um stjórn fiskveiða.

[13:55]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Aðeins almennt um það fyrst sem hv. þingmaður nefndi með stöðu sjávarútvegsins þá hefur hann búið við ein bestu ár sögu sinnar undanfarin fjögur ár í röð. Nýlega komu fram tölur frá Hagstofunni um endanlegt uppgjör og útkomu sjávarúvegsins á árinu 2011 og þær voru enn glæsilegri en fyrri áætlanir, yfir 80 milljarða framlegð eftir greiðslu veiðigjaldsins eins og það var á því ári.

Fjárfestingar í sjávarútvegi eru á uppleið. Ég sá síðast í morgun tölur frá bankakerfinu sem sýna að þrátt fyrir þessa góðu afkomu og stóraukna burði sjávarútvegsins til að fjárfesta eingöngu út úr rekstri eru útlán líka að vaxa til sjávarútvegsins á nýjan leik, sem segir sína sögu um það að greinin er aftur komin í uppbyggingarfasa. Það er ánægjulegt.

Varðandi frumvarp held ég að þetta sé gamall brandari sem ég missti út úr mér og hefur orðið þingmönnum ágætiseldsneyti í umræður. Ég sagði sem svo að ég teldi ekki að það tæki mig margar vikur að klára frumvarp um þetta ef ég mætti ráða innihaldi þess einn, en það er ekki alveg þannig þegar þarf að miðla málum, ekki bara á milli flokka eða þingmanna heldur líka margvíslegra hagsmuna í þessari fjölþættu grein, sem lúta að einstökum útgerðarflokkum, landshlutum, mismunandi tegundum veiða o.s.frv. Við höfum glímt við þetta aftur á haustmissiri og það eina sem ég get sagt við hv. þingmann á þessari stundu er að hann þarf ekki að bíða þess lengi að það skýrist hver framvindan verður. Ég geri frekar ráð fyrir að hann geti glaðst yfir því að sjá hér frumvarp á borðum innan mjög skamms tíma.