141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

breyting á lögum um stjórn fiskveiða.

[13:58]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt að afkoman er að sjálfsögðu mismunandi. Ég held að ekki sé um það deilt að stóru og breiðu fyrirtækin með fjölþætta kvótasamsetningu og sérstaklega þau sem hafa notið góðs af afkomunni í uppsjávarveiðum og -vinnslu undanfarin ár standa náttúrlega firnasterk. Minni og meðalstór fyrirtæki og einkum þau sem eru sérstaklega háð bolfiskveiðum og hafa ekki framlegð af vinnslu í rekstri sínum eiga erfiðara með veiðigjaldið. Þetta liggur fyrir.

Þá kemur tvennt á móti, annars vegar einingaafslátturinn sem nýtist hinum smærri og hins vegar sá afsláttur sem fyrirtæki fá ef þau eru með þungar skuldir vegna kaupa á veiðiheimildum undanfarin ár. Það hjálpar mjög mörgum fyrirtækjum sem ella hefðu átt í meiri erfiðleikum með að greiða veiðigjaldið en ella.

Veiðigjaldanefnd hefur auðvitað það hlutverk að fara yfir forsendurnar og undirbúa tillögur um framhaldið og vinnur að því hörðum höndum með gagnaöflun og öðru slíku.

Að sjálfsögðu, ef frumvarp er lagt fram á þingi, er meiningin sú að menn vonast til þess að fá á því afgreiðslu.