141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

útlendingar.

541. mál
[14:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ráðuneyti mitt átti fulltrúa í starfshópnum sem undirbjó þetta mál. Ég vil lýsa því strax yfir að ég er algjörlega sammála þessu frumvarpi og tel að það sé mjög brýnt að þingið freisti alls sem það getur til að afgreiða það á þessu þingi. Ég vil sömuleiðis lýsa djúpum vonbrigðum mínum yfir því að ekki skyldi hafa tekist að búa til heildarlög þar sem dvalarréttindi og vinnuréttindi væru líka tekin inn. Ég tel tóma vitleysu að hafa þann hluta í sérstökum lögum.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra sagði að það ætti að reyna af mannúðarástæðum að greiða götu þeirra sem koma utan EES, m.a. til að sameinast ættingjum sínum hér á landi. Mig langar að spyrja hann sérstaklega hvort hann telji ekki brýnt að gera þeim sem búa í stríðshrjáðum löndum en eiga ættingja hér á landi auðveldara en áður að koma hingað og sameinast þeim, sérstaklega ef hægt er að sýna fram á að ættingjarnir geti alið önn fyrir þeim og útvegað þeim hugsanlega störf við fyrirtæki sín. (Forseti hringir.) Ég tel að það mundi hjálpa öllum.