141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

útlendingar.

541. mál
[14:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Á seinni árum er nánast búið að girða landið með járntjaldi gegn því að fólk utan EES geti komið til Íslands. Mér þykir það mjög miður. Það hefur oft og tíðum verið mjög erfitt og mér hefur stundum fundist það vera alveg á jaðri alþjóðlegra sáttmála sem við höfum gerst aðilar að hversu þungt það er fyrir fólk að sameinast fjölskyldum sínum ef það uppfyllir ekki tiltekin skilyrði um vensl. Það hefur skapað alls konar leiðindi og sorg.

Varðandi það atriði sem ég spurði hæstv. ráðherra um er ég honum mjög þakklátur fyrir að hafa tekið svo jákvætt undir. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að í löndum þar sem átök eru eigi að greiða fyrir því að ættingjar sem þar búa geti leitað hingað til fjölskyldu sinnar og búið í skjóli hennar, sér í lagi ef hægt er að sýna fram á að því fylgi ekki mikill kostnaður fyrir hið íslenska samfélag. Ég geri mér grein fyrir því að hægt er að fetta fingur út í þessa röksemdafærslu og segja sem svo: Eiga þá hinir ekki að koma sem ekki eiga öfluga ættingja hér og skjól? Svarið er að á heildina litið mundi þetta hjálpa öllum, það mundi draga úr (Forseti hringir.) erfiðleikum í hinu stríðshrjáða landi og auka hamingju manna, a.m.k. að meðaltali.