141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

útlendingar.

541. mál
[14:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Í fyrsta lagi er spurt við hvað sé stuðst þegar vísað er í 18 ára aldur, að barn sé barn til 18 ára aldurs. Þarna er stuðst við íslensk lög og fyrirkomulag í öðrum ríkjum og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna, þar er þessi skilgreining einnig við lýði.

Spurningin hve lengi barn sé barn þegar það hefur náð 18 ára aldri — hugsunin er sú, vegna þess að réttindi barna eru yfirleitt rýmri en fullorðinna, að barnið sé látið njóta vafans ef um er að ræða tafir í stjórnsýslunni svo að dæmi sé tekið.