141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[15:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eins og hv. þingmaður kom inn á í upphafi andsvarsins gefst okkur kannski aðeins meiri tími til að fara yfir þessar bollalengingar. Hv. þingmaður þekkir það vel að þar sem ég á ekki sæti í viðkomandi nefnd hef ég auðvitað ekki jafnmikla þekkingu og hv. þingmaður.

Hv. þingmaður segir andsvari sínu að farið hafi verið yfir þær ábendingar að hluta sem komu. Ég efaðist svo sem aldrei um það. En mig langar að spyrja hv. þingmann, svo maður sé kannski pínulítið ósanngjarn og snúi andsvörum við í svör eða öfugt, hvort hann gæti aðeins í seinna í andsvarinu farið betur yfir það sem sneri að þeirri athugasemd sem ég vitnaði til og var send í pósti til þingmanna í morgun, þ.e. ábendingu um þær athugasemdir sem komu af hálfu fræðimanna í háskólanum.

Ég er sammála hv. þingmanni að mjög erfitt er að leggja að jöfnu, og kannski óraunhæft að gera það, annars vegar trúfélög og hins vegar lífsskoðunarfélög. Hv. þingmaður sagði í andsvarinu að ekki sé verið að útfæra þá skilgreiningu endanlega, heldur væru menn kannski, ef ég hef skilið það rétt, að feta sig inn á þá braut.

Ég fagna því hins vegar að hv. þingmaður skyldi koma í andsvar við mig til að fara aðeins yfir þetta, og spyr hvort hv. þingmaður vildi kannski fara aðeins betur yfir það hvernig fjallað var um þessa ábendingu milli 2. og 3. umr. í nefndinni.