141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt, við fórum yfir það hvort ástæða væri til að skoða það sérstaklega í nefndinni að gera breytingu á þeirri grein frumvarpsins sem fjallar um almenn skilyrði fyrir skráningu. Það var tillaga þessara fræðimanna, sem send var inn til nefndarinnar í síðustu viku, að hin almennu skilyrði skráningarinnar yrðu í raun og veru hin sömu, hvort sem um trúfélög eða lífsskoðunarfélög er að ræða. Það var mat ráðuneytisins og sömuleiðis fræðimanna sem komu að gerð frumvarpsins og úr Háskóla Íslands sömuleiðis að það væri ekki endilega rétta skrefið að stíga við þetta tækifæri. Nú kann að vera og ég nefndi það í ræðu minni að rétt sé þegar frumvarpið, ef það verður að lögum, þ.e. þegar komin er á það ákveðin reynsla þá vilji menn stíga það skref að draga fram það sem sameinar þessi félög frekar en það sem skilur þau að. Ég held að eðlilegt sé að gefa kost á því ef menn ætla að stíga skref eins og þetta, að í raun og veru séu sömu skilyrði fyrir skráningu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga, að t.d. fulltrúum þessara félaga í samfélaginu gefist kostur á því að fjalla um það og það komi fram í sérstöku frumvarpi sem verði sent til umsagnar.

Afstaða nefndarinnar er ekki efnisleg andstaða við tillöguna heldur frekar sú að rétt sé að íhuga og gaumgæfa betur slíka tillögu áður en hún er tekin inn í löggjöfina.