141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skipun rannsóknarnefndar um starfsemi lífeyrissjóða.

16. mál
[16:48]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í þessu andsvari þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, fyrir þetta innlegg í umræðuna um rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna.

Mig langar að vekja athygli á því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fjallað um það ítarlega og alloft og tekið það upp í þingsal hversu brýnt er að endurskoða lögin um rannsóknarnefndir strax og jafnvel áður en þeim rannsóknum sem nú standa yfir lýkur. Þetta kemur fram í áliti meiri hluta nefndarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknarnefndir sem forsætisnefnd lagði inn í þingið fyrir síðustu jól. Í nefndaráliti er vakin sérstök athygli á þessu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á fundi nefndarinnar var einnig fjallað um þörf á endurskoðun laga um rannsóknarnefndir í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á framkvæmd þeirra. Nú þegar hafa tvær rannsóknarnefndir verið skipaðar á grundvelli laganna og samþykkt hefur verið að skipa þá þriðju. Meiri hlutinn telur mikilvægt að sú endurskoðun fari fram sem fyrst og að í þeirri vinnu verði litið til þess hvaða reglur gilda um sambærilegar rannsóknarnefndir annars staðar á Norðurlöndunum, sérstaklega í Noregi og Danmörku. Meiri hlutinn beinir þeim tilmælum til forsætisnefndar að hún skipi vinnuhóp sem taki til starfa eigi síðar en 1. febrúar nk. þannig að vinnuhópurinn hafi greiðan aðgang að upplýsingum og reynslu nefndarmanna í þeim nefndum sem nú eru starfandi.“

Ég spyr hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur hvort forsætisnefnd hafi fjallað um erindi og ábendingu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og hvort við eigum von á því að hafist verði handa við endurskoðun þessara laga meðan hægt er að ganga í smiðju hjá því fólki sem enn er í vinnu við að framfylgja lögunum.