141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skipun rannsóknarnefndar um starfsemi lífeyrissjóða.

16. mál
[16:50]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Endurskoðun á lögum um rannsóknarnefndir hefur verið á dagskrá hjá þeirri sem hér stendur og hjá forsætisnefndinni. Það hefur ekki verið skipuð nefnd í það, enda kom fram í máli mínu að ég teldi mikilvægt að farið yrði í þá endurskoðun og þá yrði auðvitað leitað í smiðju þeirra sem eru að störfum. Ég geri ráð fyrir að hægt verði að tala við þá þótt þeir hafi lokið störfum, það er mikil reynsla í því. Það er líka mikil reynsla að horfa upp á það að menn séu tilbúnir að samþykkja hverja rannsóknina á fætur annarri en þeir séu ekki tilbúnir að setja fjármuni til verksins. Ég spyr auðvitað í tengslum við það: Hvaða hugur er að baki? Eru menn virkilega að leggja hér til enn eina rannsóknarnefndina án þess að hafa vilja til þess að setja fjármuni í það verk? Fjármunir verða að fylgja máli og hugur til að sjá til þess að þessar rannsóknir geti farið af stað.

Ég hefði gjarnan viljað, þar sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að sú nefnd skilaði áliti eftir að hafa farið yfir stóra og mikla skýrslu Hrafns Bragasonar sem vísað var til nefndarinnar. Ég spyr: Er væntanlegt álit frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um þá miklu skýrslu sem unnin var undir forustu Hrafns Bragasonar?