141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skipun rannsóknarnefndar um starfsemi lífeyrissjóða.

16. mál
[16:52]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé að það er nauðsynlegt að koma hingað upp í ræðu í framhaldi af þessum orðum hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Ég vil vekja athygli á því að í þeirri tillögu til þingsályktunar sem við erum að ræða er farið yfir þá úttekt sem samþykkt var hjá Landssamtökum lífeyrissjóða 24. júní 2010, Úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og lagalegu umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins 2008. Farið er yfir hvernig nefndin var skipuð, hvernig henni var falið að vinna, hvaða afmörkun var á því verkefni sem henni var falið og enn fremur kemur fram hvaða takmarkanir voru á því sem nefndin gat safnað af upplýsingum. Ákveðin vonbrigði komu fram strax og niðurstöður þessarar úttektar lágu fyrir. Í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu er vakin athygli á því á bls. 2 að þessi nefnd hafði ekki valdheimildir til að krefjast þess að gögn, upplýsingar eða skýringar kæmu fram líkt og gengið hefur verið frá í lögum um rannsóknarnefndir. Eftirlitsstofnanir með lífeyrissjóðunum gátu borið fyrir sig þagnarskyldu í ríkum mæli. Það var ekki hægt að kveðja fólk til skýrslutöku ef það vildi ekki gefa skýrslu. Nefndin gat heldur ekki gert rannsóknir á starfsstað.

Ég mun koma að því í ræðu minni hér á eftir að sú úttekt sem þarna fór fram var góðra gjalda verð og nauðsynleg og lífeyrissjóðirnir voru ánægðir með hana, en hún uppfyllir því miður ekki þær kröfur sem Alþingi gerði þegar samþykkt var að fara skyldi fram rannsókn á lífeyrissjóðunum.