141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara.

453. mál
[17:45]
Horfa

Flm. (Róbert Marshall) (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað ég sem er í andsvari við hv. þingmann. Ég vildi þess vegna líka spyrja hv. þingmann hvort henni sé kunnugt um það hvar frumvarpið um afhjúpendur sé statt og hversu lengi við eigum að bíða eftir því að það komi hérna fram og verði lagt fram vegna þess að tímaramminn er þannig að núna þegar ég hef mælt fyrir málinu getur það sem betur fer farið til nefndar, verður það væntanlega sent til umsagnar og vanalega tekur það tvær til þrjár vikur. Eftir tvær til þrjár vikur er farið að verða mjög þröngt um hvað varðar þingdaga til þess að taka málið til umfjöllunar í nefnd og taka það hér til 2. umr.

Ég er mjög opinn fyrir öllu því sem hv. þingmaður benti á að þyrfti að skoða og, með tilliti til þeirra fræðimanna sem hún vitnaði til, að það verði þá tekið inn í þetta frumvarp sem þó er komið á þennan stað í þeirri mulningsvél sem þingið er. Við getum þá reynt að sameina það allra besta úr þessum tveimur frumvörpum og gert þetta þannig að við séum sátt við það.

Það sem fyrst og fremst vakti fyrir mér með flutningi þessa máls er að ég var í góðri aðstöðu til þess að vinna það með fínu fólki sem var tilbúið til að leggja á sig mikla vinnu við að aðstoða mig við það. Það er auðvitað mjög brýnt að koma málinu inn í þingið, geta hafið umsagnarferli og vinnsluna til að við náum að uppfylla það markmið okkar sem var í þingsályktunartillögu hv. þingmanns frá 2010 — sem ég studdi með ráðum og dáð og var mjög ánægður með — þannig að það nái að uppfylla enn meira á þessu kjörtímabili vegna þess að núna er tíminn orðinn mjög takmarkaður.