141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara.

453. mál
[17:47]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Já, það er rétt, ég varð aðeins ringluð yfir því hver væri í andsvari af því að upprunalega ætlaði ég að fara í andsvar við þingmanninn en ekki halda ræðu en sá á klukkunni að ég var allt í einu komin í ræðu.

Ég held að okkar markmið séu algjörlega áþekk eða nákvæmlega hin sömu. Það má eiginlega segja að hv. þingmaður hafi verið sá sem átti hvað mest í þessari þingsályktun af því að hann lagði töluverða vinnu á sig eftir að þingsályktunin var komin í gegn til þess að kynna hana og ræða um hana. Það er mikilsvert þar sem engin svona mál ná fram að ganga nema haldið sé áfram að þrýsta á að þau klárist, það er bara þannig.

Ég held að það sé óhætt að segja um þessa einföldun á upplýsingaskyldu opinberra starfsmanna og þagnarákvæðum, þetta er núna inni í forsætisráðuneyti og ég á von á því að á næstu dögum komi restin af þeim lögum sem er verið að vinna í og þá á sem sagt frekari vinna á afhjúpendalöggjöf að fara inn vonandi bara í næstu viku eða þarnæstu. Jafnframt er verið að vinna að fleiri lögum sem skipta okkur miklu máli eins og breytingu á meiðyrðalöggjöf, það er verið að færa hana úr sakarétti yfir í einkarétt og það skiptir mjög miklu máli. Það er nú eitt af því sem maður þarf að halda áfram að þrýsta á ef það næst ekki í gegn, að það verði lagað á næsta þingi ef það tekst ekki á þessu.