141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er dæmalaust að hlusta á málflutning hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um að úrslit Icesave-málsins hafi öll byggst á tilviljunum, að það væri tilviljun að Íslendingar unnu sigur á móti stórþjóðum í þessu stóra máli. Það er með ólíkindum að þessu skuli vera stillt upp á þennan hátt í dag, það sýnir hve blekkingin er á háu stigi hjá ríkisstjórnarflokkunum hvað það varðar hverjar staðreyndirnar voru.

Það kjörtímabil sem nú er að líða hefur verið ógeðfellt. Ég ætla að benda á að engar tilviljanir hafa átt sér stað á kjörtímabilinu. Við erum hér með rammaáætlun Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Við erum með ESB-umsókn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Við vorum að landa stórsigri, þjóðin öll, í Icesave. En þetta var Icesave-samningur Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, gleymum því ekki, og hér á eftir förum við að ræða um stjórnarskrá Vinstri grænna og Samfylkingarinnar.

Það er ekki tilviljun að þessi sigur vannst. Þetta er klár stefna vinstri ríkisstjórnarinnar sem ég var að lesa upp. Vinstri flokkarnir ætluðu að ná fram stefnu sinni og markmiðum á þessu eina kjörtímabili í ósátt við bæði þing og þjóð. Úrslit Icesave-málsins eru ekki tilviljun. Þetta kostaði baráttu utan þings sem innan. Það var ekki tilviljun þegar þjóðin tók í tvígang völdin af ríkisstjórninni sem leiddi til þess að sigur vannst í Icesave-málinu, sigur smáþjóðar fyrir alþjóðadómstóli. Ég segi: Til hamingju með þetta afrek, Íslendingar.