141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég get varla orða bundist yfir orðum hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar hér áðan þegar hann reyndi að halda því fram að Icesave-málið og niðurstaða þess hefði verið tilviljun. Ég tel að með þessum orðum sé þingmaðurinn að tala niður til okkar þingmanna sem stóðum hér og börðumst fyrir því að þetta mál næði ekki fram að ganga. Hann er að mínu viti að tala niður til þjóðarinnar sem kaus gegn þeim ólánssamningum sem hann og aðrir flokksfélagar hans vildu troða öfugum ofan í kokið á þjóðinni. Mér finnst þetta ekki góður málflutningur hjá hv. þingmanni, mér finnst hann í raun til skammar.

Við skulum alveg hafa það á hreinu að hér stóðu þingmenn dögum saman og við skulum bara kalla það málþóf því að það var það sem hv. stjórnarþingmenn kölluðu það þá, að við værum með málþóf út af Icesave. Við töluðum meðan þjóðin skráði nöfn sín á undirskriftalista til að skora á forseta Íslands. Það var engin tilviljun að forsetinn ákvað að grípa inn í, það er til skammar að halda því fram.

Stjórnarþingmenn reyna eðlilega að breyta sögunni, að breiða yfir það hvernig þeir héldu á málum með Icesave. En munum að frá fyrsta degi ákvað þessi ríkisstjórn að segja okkur ósatt í þessu máli. Gleymum því ekki júní 2009 þegar hæstv. núverandi atvinnuvegaráðherra stóð í þessum ræðustól og sagði: Það er ekkert verið að semja um Icesave. Tveimur dögum síðar leit samningurinn dagsins ljós. Svavarslistaverkið stórkostlega leit dagsins ljós, glæsileg niðurstaða, tveimur dögum síðar. Svo eigum við bara að gleyma þessu og þjóðin á bara að gleyma því að henni var sagt ósatt.

En þjóðin mun ekki gleyma þessu. Hún mun muna þetta í nokkrar vikur, á kjördag, hvernig haldið var á þessu máli, hvernig stjórnarflokkarnir reyndu að plata þingið og plata þjóðina til að taka á sig hundruð milljarða af skuldum sem hún átti ekki skilið, sem við áttum ekki skilið að taka á okkur. Þetta er sorglegt.

Ef ég man rétt sagði hæstv. atvinnuvegaráðherra einhvers staðar að hann mundi leggja sig að veði í þessu máli og nú er kominn tími til að innheimta það veð. Hann hlýtur að segja af sér, maðurinn.