141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Já, margir ræða hér um hvaða lærdómur það er sem við eigum helst að draga af Icesave-málinu. Mitt mat er að aldrei aftur eigi það að gerast að þingmenn á Íslandi þurfi að standa í þessum stól og reyna með öllum tiltækum ráðum að draga fram upplýsingar um samning sem átti að keyra í gegnum Alþingi sem varðaði mikilsverða fjárhagslega hagsmuni landsins alls og allra skattborgara til langrar framtíðar án þess að þingmenn fengju að sjá þann samning.

Ég skil ekki, frú forseti, hvers vegna sá hæstv. ráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sem bar þetta mál uppi, bar þetta mál á herðum sér eins og hann orðaði það sjálfur, getur ekki viðurkennt þetta. Mat hans var rangt og ég tel að við eigum öll að vera sammála um að þetta eigi aldrei nokkurn tímann að gerast aftur. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Magnús Orri Schram talaði um bætta stjórnmálamenningu. Það voru svo sem ágætisorð sem hv. þingmaður lét falla og skrifaði á bloggi sínu um þetta og vísaði í umræðunni sérstaklega til stjórnarskrármálsins. Nú kallar hv. þingmaður eftir því að menn setjist saman yfir málið, ræði það og nái einhverri málamiðlun. Ég kannast ekki við það, frú forseti, að boðið hafi verið upp á einhverjar málamiðlanir í þeirri nefnd sem hefur haft þetta mál til umfjöllunar. Ég kannast eingöngu við mjög einstrengingslega afstöðu frá þeim sem stýra málinu þar inni, að þetta mál skyldi ekki rætt málefnalega og efnislega. Það hefur ekki farið fram efnisleg umræða um þetta mál nú þegar. Það að kalla eftir því núna þegar nokkrir dagar eru eftir af þessum þingvetri og þessu kjörtímabili að boðið sé upp á málamiðlun er svo sem ágætt en ansi seint í rassinn gripið.