141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Hv. þm. Magnús Orri Schram kallaði eftir að við tileinkuðum okkur ný vinnubrögð í framhaldi af Icesave-málinu. Hann ritaði um það ágætisfærslu á vefsíðu sína sem er góðra gjalda verð. Ég kalla eftir því að hv. þm. Magnús Orri Schram beiti sér fyrir því að þessi nýju vinnubrögð verði innleidd, m.a. í umræðum um nýja stjórnarskrá. Margt er nefnilega keimlíkt með ferli beggja mála.

Þarna er verið að setja þetta mál ofan í flokkspólitískan farveg þegar það þarf ekki að vera þar. Ég skora á hv. þm. Magnús Orra Schram að beita sér fyrir þessum nýju vinnubrögðum nú þegar í störfum Alþingis.

Ég verð að segja að það var margt merkilegt við ummæli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um Icesave, að það væri tilviljun ein hvernig Icesave-málið hefði farið, tilviljun ein að Íslendingar hefðu sigrað í Icesave-málinu fyrir dómstólum. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson veit betur. Það var meðal annars hann sem ætlaði að koma Icesave-samningunum óséðum í gegnum Alþingi. Hann er einn þeirra sem beitti félaga sína mjög grimmilegum aðferðum sem börðust gegn þessu máli á sínum tíma og hv. þm. Lilja Mósesdóttir rifjaði hér upp í gær. Það átti að koma 300 milljörðum íslenskra króna á herðar skattgreiðendum og þeir voru einfaldlega lagðir í einelti sem vildu ekki taka þessu og staðfesta (Gripið fram í.) „glæsilega“ samninginn frá Svavari Gestssyni, fyrrverandi þingmanni og ráðherra.

Það er með ólíkindum að hlusta á þetta. Ég verð að segja að ég fylltist bjartsýni þegar ég sá hv. þm. Árna Þór Sigurðsson koma í stólinn því að ég hélt eitt augnablik að hv. þingmaður ætlaði að biðjast afsökunar fyrir hönd Vinstri grænna á framkomunni í þessu máli gagnvart þjóðinni. Ég kalla eftir því að þeir sem bera á þessu ábyrgð (Forseti hringir.) biðji þjóðina afsökunar á framgöngu sinni í málinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)