141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Nú þegar loks er ljós niðurstaða Icesave-málsins vilja ýmsir, m.a. nokkrir hv. þingmenn, þakka sjálfum sér sérstaklega. Ég finn fyrir miklum létti vegna niðurstöðu málsins og tel að allir sem hafa lagt hönd á plóg við úrlausn þess eigi þakkir skildar á hvaða stigi sem það var gert. Málið var okkur mjög erfitt og vinna þurfti að lausn á einum erfiðasta tíma þjóðarinnar, við hrun efnahags og samfélags.

Mér finnst, eins og öðrum hv. þingmönnum, mikilvægt að læra af þessari sögu allri og minnast þess hvernig vandinn var tilkominn og hverjir gátu búið hann til í skjóli þess umhverfis sem fjármálastofnunum var búið hér á landi. Eigendur og stjórnendur Landsbankans bjuggu til vandann vegna þess að þeir voru að reyna að bjarga eigum sínum í bankanum og öðrum fyrirtækjum eftir að lokað hafði verið á frekari lánveitingar til bankans á alþjóðlegum fjármálamarkaði á árinu 2006. Þá ákváðu þeir að afla fjár með því að ná í sparifé almennings í Bretlandi og Hollandi með yfirboðum í vaxtakjörum. Það gerðu þeir til að halda bankanum lengur á floti. Með því að gera þetta með útibúum frá bankanum gátu þeir flutt fé til Íslands og um leið lögðu þeir áhættuna á íslenska þjóð.

Ef þeir hefðu valið, eða orðið, að stofna dótturfélög um þessa starfsemi hefði eftirlitið verið í Hollandi og Bretlandi en ekki hér á landi og engir möguleikar að flytja fé svo ört til bankans hér heima. Nú þegar menn vilja metast um hvaða skref hafi verið best, eða verið mistök í ljósi góðrar niðurstöðu — sem reyndar enginn gat verið viss um að næðist — ættum við að staldra við og gera tilraun til að meta það tjón sem óleyst deilan og óvissan með þeim lausu endum hefur valdið okkur allt frá árinu 2008. Það verður flókið mat en rýna mætti til dæmis í umsagnir matsfyrirtækja um málið og meta hvað lausn deilunnar með samningum hefði gefið okkur í lánshæfismati (Forseti hringir.) á hverjum tíma. Hvert prósentustig í vaxtakjör skiptir ríkissjóð nefnilega milljörðum króna.