141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins mikið og framsóknarmenn langar að gera Icesave-málið að kosningamáli í vor held ég að þeim verði ekki að ósk sinni í því. Ég held að fólk andi léttar og sé fegið að það ömurlega mál sé að baki og horfi fram á við, til framtíðar, ég geri það að minnsta kosti, en ekki í baksýnisspegilinn.

Ég horfi til framtíðar landsbyggðarinnar, ég horfi til þess að nú getum við farið að leggja fé í að byggja upp það sem trassað hefur verið í fjölda ára af fyrri ríkisstjórnum. Þá er ég til dæmis að tala um afhendingaröryggi rafmagns víða á landsbyggðinni, eins og kom berlega í ljós á Vestfjörðum nú um hátíðarnar. Þar voru hlutirnir í miklum lamasessi vegna þess að menn hafa ekki í gegnum áratugina lagt fé í að byggja upp raforkukerfið. Nú horfum við fram til þess að breytingar verða að verða þar á.

Heimamenn og þingmenn Norðvesturkjördæmis hafa rætt þessi mál undanfarið. Við erum sammála um að þótt til framtíðar litið verði að byggja varanlega upp og breyta verður að bregðast við strax. Ég tel því mjög ánægjulegt að sú skýrsla sem atvinnuvegaráðuneytið lét gera, og kom fram í desember, um afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum, liggur fyrir. Unnið verður í framhaldi hennar að því að skipa starfshóp til að bregðast við ástandinu á Vestfjörðum til að bæta úr því sem hægt er strax og svo til framtíðar, svipað og gert var á Norðurlandi í kjölfar óveðursins þar. Innanríkisráðuneytið er að vinna að því að kortleggja það sem sneri að þeim málaflokki, fjarskiptum og samgöngum, til þess að bregðast hratt og örugglega við. Ég tel það mjög brýn og góð skilaboð til Vestfirðinga, að þessi ríkisstjórn láti málefni landsbyggðarinnar sig varða.