141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[15:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Um stund efaðist ég um að ég væri að koma upp um sama mál og hæstv. ráðherra og fyrri ræðumaður hér áðan, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, því að þetta mál er enn algjörlega óskýrt í nefndinni. Þetta mál var enn og aftur tekið fyrir í nefndinni milli 2. og 3. umr. meðal annars til að skoða skilgreininguna á hugtakinu lífsskoðunarfélag. Það er enn algjörlega óskýrt hvað þetta muni hafa í för með sér.

Það kann vel að vera að hægt sé að fara svipaða leið og Norðmenn en þeir samþykktu sérstakt mál um stöðu lífsskoðunarfélaga. Sú leið sem þessi ríkisstjórn er að fara er algjörlega óljós, þetta er hugsanlega opinn tékki á ýmsa starfsemi. En fyrst og síðast er skilgreiningin óljós. Ekkert hefur verið komið inn á það hvaða stöðu og áhrif þetta muni hafa á starf og umhverfi sóknarstarfs kirkjunnar í landinu. Við höfum einfaldlega ekki farið yfir það hvaða áhrif þetta hefur almennt á gildi okkar Íslendinga og okkar íslenska samfélags, hvaða áhrif þetta hefur á kristnina í samfélagi okkar. Ég hefði viljað fara miklu betur yfir þetta mál en þetta er enn eitt dæmið um ömurleg vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, ömurleg vinnubrögð í enn einu málinu.