141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[15:48]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það ríkir trúfrelsi og jafnrétti í landinu og stjórnarskráin ver það. Það er löngu tímabært að hætta að mismuna fólki eftir því hvort það vill tilheyra trúarlegum félagsskap varðandi lífsskoðanir sínar eða borgaralegum. Þannig hefur það þó verið og við þingmenn eigum að þora að horfast í augu við það. Við höfum hér góðan félagsskap, Siðmennt, lífsskoðunarfélag sem hefur í 15–20 ár veitt tiltekna þjónustu. Eftirspurnin eftir henni hefur vaxið ár frá ári þannig að svo er komið að líklega yfir 200 ungmenni á fjórum, fimm stöðum á landinu í stórum fermingum kjósa þessa þjónustu og að fermast borgaralega.

Hvers vegna skyldi slíkur félagsskapur ekki vera jafnsettur öðrum sem veitir sambærilega þjónustu, þessa staðfestingu, þótt á trúarlegum forsendum sé? Það er löngu tímabært að laga íslenska löggjöf að þessu leyti og sérstakt ánægjuefni að það er vonandi að takast hér í dag.