141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[15:50]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér er stigið jafnræðisskref og mannréttindaskref. Þegar við vorum hér að fjalla um þetta við 3. umr. í gær, m.a. við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, ég held að þrír eða fjórir hafi tekið þátt í þeirri umræðu, leit þetta þannig út að allir væru meira og minna sammála um meginatriðin í frumvarpinu.

Það var kvartað yfir skilgreiningum, að þær væru ekki nógu góðar, kannski of óljósar. Þó kom fram að þær væru betri og harðari hér en í Noregi þar sem þetta mál er upprunnið, a.m.k. er fyrirmyndin þaðan.

Nú kemur í ljós að að dómi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þetta mál eftir að skapa hér bæði rótleysi og siðspillingu og eyðileggja guðs kristni á Íslandi. (GBS: Sögðu framsóknarmenn það?) Þá er til þess að líta hvernig ástandið er í Noregi því að þar (Forseti hringir.) hefur þetta verið svona í marga áratugi. Er rótleysi og upplausn í Noregi? Stendur guðs kristni (Forseti hringir.) þannig í Noregi að við eigum að forðast að taka þetta skref? Hugsi hver fyrir sig.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á að hér eru menn að ræða um atkvæðagreiðsluna. Þetta er ekki almenn umræða.)