141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

155. mál
[15:56]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta mál sé komið hingað. Mér skilst að það hafi verið afskaplega vel unnið í nefndinni. Mig langar bara að benda á eitt, sem ég hef áður gert í þessum sal, ég hef velt upp þeirri spurningu til forseta þingsins og forsætisnefndar inn í hvaða nefndir mál fara. Þetta mál er í allsherjar- og menntamálanefnd en varðar málefni barna. Ég stóð hér þegar við fjölluðum um barnalögin og hélt því fram að það mál ætti að vera í allsherjar- og menntamálanefnd. Því var vísað til velferðarnefndar af því að það fjallaði um börn og sagt að öll mál er vörðuðu börn ættu að vera þar inni.

Ég hvet forsætisnefnd og hæstv. forseta til að skýra með hvaða hætti málum er skipað í nefndir vegna þess að það er greinilega ekki mikil festa í því með hvaða hætti haldið er á.