141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

Byggðastofnun.

162. mál
[16:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Byggðastofnun er sérstök stofnun, svo sérstök að kveðið er sérstaklega á um það í lögunum að hún sé sérstök stofnun. Það hefur lagalega þýðingu vegna þess að samkvæmt laganna hljóðan þýðir það það að niðurstöðu hennar er hægt að skjóta til æðra stjórnvalds, í þessu tilviki atvinnuvegaráðuneytisins.

Hér er hins vegar verið að loka á þá kæruleið án þess þó að breyta stjórnskipulegri stöðu Byggðastofnunar. Áður og fyrr var hún sjálfstæð stofnun. Þá var ekki hægt að kæra niðurstöðu hennar en hér er, með öðrum orðum, þessi stofnun sett í mjög sérstaka stöðu, hún er sem sagt sérstök stofnun þar sem hægt er að kæra úrskurðina en síðan með sérstöku lagaákvæði er verið að girða fyrir það að svo sé gert. Þetta eru ekki góð vinnubrögð.

Ég skil vel hugsunina á bak við það að menn vilji ekki fá kærumál vegna stofnunarinnar í hrúgum inn í ráðuneytið, en mér er nú sagt að ekki hafi verið mörg dæmi um það. (Forseti hringir.) Engu að síður er heldur ekki hægt að ganga frá málinu með þeim hætti sem hérna er verið að gera. Þess vegna munum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki styðja málið.