141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

fundarboð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

[16:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Nú stendur fyrir dyrum að hefja þá miklu umræðu um breytingar á stjórnarskrá landsins. Nokkrum klukkutímum eða tæplega það áður en þessi umræða hófst bárust nefndarmönnum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hins vegar fundarboð þar sem gert er ráð fyrir því að málið verði tekið fyrir á fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég spyr: Hvað er hér á seyði? Er verið að leggja drög að því að kalla málið til nefndar að nýju? Er verið að viðurkenna það, sem reyndar blasir við öllum, að þetta mál er hvorki hrátt né soðið, það er algjörlega óundirbúið? Er þetta viðurkenning af hálfu forustu nefndarinnar á því að málið hafi ekki verið tilbúið til þessarar umræðu? Er hugmyndin að leggja málið fram í einhverjum bútum og bitum sem við ræðum síðan á þeim grundvelli? Ber að líta þannig á að nefndarálitið sé fullbúið plagg, eða hvers konar skrípaleikur er hér á ferðinni?