141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

fundarboð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

[16:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það kemur mér á óvart að boðað skuli vera til fundar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þegar taka á málið fyrir núna á eftir. Hér verða rædd nefndarálit sem byggja á því að málið allt sé undir. Svo virðist sem taka eigi fyrir einhvern einn kafla eða ákveðinn hluta á nefndarfundinum í fyrramálið, ef ég hef skilið þetta rétt, og fjalla um hann á sama tíma og verið er að fjalla hér um nefndarálit þingmannanna. Við hljótum því að spyrja hvort þingmenn hafi verið hafðir einhvern veginn að fíflum með því að setja inn nefndarálit og athugasemdir, ef á að fara að breyta málinu sem þeir hafa skilað inn álitum við áður en umræðan er tæmd.

Við hljótum að gera athugasemdir við þetta, frú forseti. Ég legg til að sá fundur sem á að vera í fyrramálið verði tekinn af dagskránni eða þá að málinu verði frestað þar til fundurinn er búinn og nefndin er tilbúin til þess að ræða málið hér, því að hún er augljóslega ekki tilbúin til þess að ræða málið í þingsal.