141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

fundarboð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

[16:15]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var lögð til viðamikil breyting á ákvæðinu um alþingiskosningar. Það var mjög vel skýrt og góð greinargerð með því í frumvarpinu. Það kom hins vegar fram að einhverjir þingmenn vilja ræða þetta nánar og fá nánari útlistun á þessu, sem ég tel þó mjög góða í greinargerðinni. Ég sagði strax þá að sjálfsagt væri að verða við því hvenær sem er. Ef menn vilja ekki ræða það og fræðast nánar um það sem þarna er og búið er að leggja fram og ræða í nefndinni er sjálfsagt að afboða fundinn. Ég vil þó segja að það verður fundur í fyrramálið með fulltrúum innanríkisráðuneytisins út af gerð kjörseðla fyrir kosningarnar á morgun (Forseti hringir.) þannig að fundurinn verður ekki afboðaður. En ef það er skýr ósk minni hlutans, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks — að þetta verði ekki … fáist ekki kynning á þessu máli, er það alveg sjálfsagt, virðulegi forseti, ekkert því til fyrirstöðu.