141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

fundarboð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

[16:17]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem hefur markað málatilbúnaðinn í undirbúningi þessa máls hefur verið það að klúður hefur orðið í hverju einasta skrefi. Maður hefði getað ímyndað sér eitt andartak að þeir sem hafa forustu fyrir nefndinni mundu nú reyna að læra af þessu klúðri öllu saman, mundu nú reyna að vanda sig við þetta mál. Því er ekki að heilsa. Þetta mál er flutt hér inn greinilega, eins og ég heyrði af vörum hv. formanns nefndarinnar, í einhvers konar bútum (Gripið fram í: Já.) Þetta er eitthvert svona milliuppgjör. Þetta er eitthvert svona áfanganefndarálit sem verið er að skila hér í þessum efnum.

Síðan á að skella hér á fundi til þess að ræða um kjörseðla á morgun. Hvað ætli verði næst, á föstudaginn eða eftir helgina eða hvenær sem menn láta sér detta í hug að halda slíka fundi áfram? Þetta er með ólíkindum. Það er eðlilegast, úr því svo er komið að forusta nefndarinnar metur málið þannig að það sé ekki tilbúið til þessarar umræðu, að kalla þurfi nefndina saman að nýju, (Forseti hringir.) að fresta þessari umræðu og bíða eftir því að nefndin klári sín störf þannig að hún geti einhvern tímann lagað sitt eigið klúður.