141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

fundarboð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

[16:21]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er sannarlega dapurlegt hversu langt menn seilast til þess að koma sér hjá því að ræða efnislega um þær breytingar og þær tillögur og þann rökstuðning sem hér liggur fyrir og er næst á dagskrá á Alþingi Íslendinga. Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á því sem segir á bls. 2 í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, með leyfi forseta:

„Þá er einnig rétt að taka fram að meiri hlutinn er reiðubúinn til og mun áfram funda um málið eftir því sem tími gefst frá umræðunni og skoða jafnóðum sjónarmið og ábendingar sem fram koma jafnt um breytingar og málsmeðferð. Þá mun nefndin fjalla ítarlega um málið milli 2. og 3. umr.“

Þetta er verklag sem hefur verið lýðum ljóst sem hafa viljað hlusta. Við viljum að þessi umræða verði djúp og hún verði efnisleg. Ég bið menn lengstra orða að hætta nú að tala um málsmeðferð (Forseti hringir.) og fara að vinda sér í umræðuna sjálfa.