141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:28]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það eru tvö atriði sem ég vil taka upp við hv. formann nefndarinnar. Fyrra atriðið varðar 111. gr. um framsal ríkisvalds. Það verður ekki annað séð en að meiri hluti nefndarinnar sé að opna fyrir að þingið geti, án þess að það verði borið undir þjóðina, tekið ákvörðun um að framselja ríkisvald til alþjóðastofnana sem við Íslendingar eigum ekki aðild að. Í greinargerð með tillögu nefndarinnar er sérstaklega komið inn á að þetta sé gert til þess að opna fyrir eðlilega þróun EES-samstarfsins. Það er mín skoðun að hér sé ekkert annað á ferðinni heldur en fullkomin eftirgjöf gagnvart óþolandi kröfum Evrópusambandsins um að við framseljum ríkisvald til stofnana sem við eigum enga aðild að og starfa á grundvelli ESB-sáttmála. (Forseti hringir.) Þannig verði horfið frá tveggja stoða kerfinu sem EES-samstarfið hefur ávallt byggst á. Hvers vegna í ósköpunum (Forseti hringir.) er nefndin að leggja til að ekki verði áfram starfað á grundvelli tveggja stoða kerfisins?