141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:30]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er auðvitað alrangt hjá formanni nefndarinnar. Þingið hefur ekkert verið að leika sér á neinu gráu svæði. Það hefur verið alveg skýrt í öllum málum sem hafa komið inn til þingsins að framsal ríkisvalds til stofnana sem við eigum ekki aðild að kemur ekki til greina og er brot á stjórnarskránni. Meiri hluti nefndarinnar er að leggja til að Ísland gefi eftir kröfur Evrópusambandsins og það verði opnað á það hér á þinginu, verði slíkar ákvarðanir teknar, að ríkisvald verði framselt til stofnana sem við eigum ekki aðild að án þess að þjóðin komi þar að með atkvæðagreiðslu. Þetta er ekkert annað en undirgefni við óþolandi kröfum Evrópusambandsins sem menn eiga að mæta af hörku eins og ávallt hefur verið gert fram til þessa. Það á til dæmis við um bankatilskipunina sem núna er í farvatninu. Það er ekki hægt að tala svona um að við höfum verið að leika okkur á einhverju gráu svæði. Öll tilvik þar sem ríkisvaldið hefur í litlum skrefum verið framselt fram til þessa hafa varðað framsal til stofnana sem starfa á grundvelli EES-samstarfsins. Það er auðvitað fráleitt að hér sé að (Forseti hringir.) opnast umræða um að hverfa frá grundvelli EES-samstarfsins, (Forseti hringir.) bara svona af því að það kemur fram undir lok meðferðar nefndarinnar á utanríkiskaflanum.