141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðuna og þá yfirferð sem hann skilaði í formi nefndarálits ásamt hv. þm. Ólöfu Nordal.

Fyrsti minni hluti, sem þessir þingmenn skipuðu, fór þá leið að gera ítarlegar athugasemdir við frumvarpið sem liggur nú fyrir, öfugt við 2. minni hluta sem ég tala hér fyrir. Þetta er mjög góð yfirferð og er á 111 blaðsíðum þannig að það sjá allir að málið er meingallað enda hefur það verið gagnrýnt mjög mikið.

Mig langar til að fara aðeins yfir ákveðin atriði sem hv. þingmaður fór yfir, t.d. útskýra nánar hvaða afleiðingar það gæti haft til framtíðar að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar virðist ekki ætla að fara eftir skoðunum, álitum og leiðbeiningum fræðimanna á sviði stjórnarskipunarréttar. Það má eiginlega fullyrða að meiri hlutinn hefur hunsað mjög mikilvægar ábendingar varðandi það hvernig breyta á stjórnarskrá og fullveldisframsalsákvæðinu. Það var ekki gefið ráðrúm til að bíða eftir því hvað Feneyjanefndin hefur að segja um frumvarpið. Bæði meiri hluti og minni hluti fóru fyrir Feneyjanefndina til að útskýra sitt mál og voru aðilar í Feneyjanefndinni með mjög krefjandi spurningar. Hvernig sér þingmaðurinn þá vinnu fara inn í þingið ef Feneyjanefndin gerir meiri háttar tillögur til breytingar við frumvarpið? Er þetta mál þá ekki hreinlega fallið á tíma?