141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kom víða við í andsvari sínu. Ég vildi fyrst segja um þetta að nefndarálit okkar hv. þm. Ólafar Nordal er vissulega ítarlegt á köflum en ég tek þó enn fram það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar áðan, að þetta er ekki tæmandi talning á þeim gagnrýnisatriðum, athugasemdum og ábendingum, sem þarf að huga betur að og fram koma í nefndarálitum og umsögnum, bæði þingnefnda og annarra. Þingmenn og aðrir geta nálgast meira efni á vef þingsins.

Afleiðingar. Ég er sammála hv. þingmanni um að í mörgum veigamiklum atriðum er ekki farið að ráðum fræðimanna. Í mörgum tilvikum er frekar farið að ráðum samflokksmanna hv. þingmanna í öðrum þingnefndum en ráðum fræðimanna. Ég ætla ekki að alhæfa vegna þess að í sumum tilvikum eru gerðar breytingar af hálfu meiri hlutans sem eru til bóta. Lagfæringar sem ég gat ekki mikið um hér áðan eru vissulega fyrir hendi. En afleiðingarnar af því að þetta frumvarp nái fram að ganga eins og það er eða eins og það stefnir í að verða, skulum við segja, eru þær sem ég nefndi hér áðan: Það er hætta á stjórnskipulegri óvissu um marga þætti og það er líka hætta á réttaróvissu um inntak og hugsanlega túlkunarmöguleika varðandi ýmis réttindaákvæði. Það er eiginlega verið að varpa boltanum fyrir mjög mikinn lagalegan, stjórnskipulegan og réttarfarslegan vafa á sviðum þar sem er kannski ekki mikill vafi fyrir hendi í dag. Það kann að vera að sumum finnist það bara gott en ég er þeirrar skoðunar að það sé um að gera að búa þannig um hnúta að sá vafi sé sem minnstur, óvissan sé sem minnst, (Forseti hringir.) réttaröryggið sé sem mest.