141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi síðasta atriðið þá er það einmitt atriði sem ég hef töluverðar áhyggjur af. Hvaða áhrif hefur það? Hvaða væntingar skapar það? Hvaða áhrif hefur það á meðferð réttinda af hálfu löggjafa og af hálfu dómstóla ef sett eru inn stjórnarskrárákvæði sem síðan er ekki ætlunin að hrinda í framkvæmd fyrr en síðar? Ég treysti mér hins vegar ekki til að fjalla mikið um það því að ég tel að það þarfnist nánari skoðunar og satt að segja verður maður að bíða eftir að fá einhverja útfærða tillögu um þetta til að geta tekið afstöðu til þess.

Varðandi málið að öðru leyti, framhald vinnunnar, Feneyjanefndina og annað þess háttar, þá er ég í raun og veru ekki í aðstöðu til að svara því. Það eina sem ég þykist vita, miðað við þá fundi sem við áttum með fulltrúum Feneyjanefndarinnar á dögunum, er að ekki sé endilega að vænta beinna tillagna frá Feneyjanefndinni heldur miklu frekar ábendinga um atriði sem þurfi að huga betur að. En það er erfitt að fjalla um það fyrr en við sjáum þann texta sem frá nefndinni kemur.