141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í upphafi ræðu minnar ræddi ég að fyrir hendi væri grundvallarágreiningur um nálgunina í þessu máli. Það kom fram að við teldum að það væri óvarlegt og óskynsamlegt að fara þá leið sem farin er í þessu frumvarpi og breyta allri stjórnarskránni í einu. Við teldum eðlilegra að farið væri í afmarkaðar breytingar á stjórnarskránni og það mótar afstöðu okkar til frumvarpsins. Það má segja að þegar við rekjum þær athugasemdir sem fram hafa komið við einstakar greinar þjóni það þeim tilgangi að vekja athygli á því hversu mörg álitaefnin eru í raun og veru og til hve margra sviða þau taka.

Ég held að hv. þingmaður verði að sætta sig við það að ef tillögur kæmu fram af hálfu Sjálfstæðisflokksins væru þær ekki plástrar á þetta frumvarp eins og það lítur nú út heldur væri um að ræða allt aðra nálgun, annað frumvarp vegna þess að við mundum nálgast málið þannig, eins og við höfum margoft sagt, að við tækjum út fimm atriði til að breyta eða bæta við núgildandi stjórnarskrá frekar en að fara í þá vinnu að endurskrifa frumvarpið eins og við þyrftum raunverulega að gera ef við ætluðum að taka mark á öllum þeim ábendingum og athugasemdum sem fram hafa komið.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að við tökum ekki endilega undir allar þær athugasemdir sem við rekjum í nefndarálitinu. Við vildum hins vegar halda þeim til haga, sérstaklega í ljósi þess að þarna eru ýmis álitamál sem við teljum að séu enn þá óútkljáð.