141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:49]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég skil nákvæmlega hvað hann er að fara enda hefur það komið skýrt fram í máli fulltrúa Sjálfstæðisflokksins bæði í okkar nefnd og í umræðunni. Hann nefndi í svari sínu afmarkaðar breytingar. Það er einmitt það sem ég hef verið að horfa til vegna þess að við höfum rætt hér og það kom skýrt fram í ræðu hans á undan um auðlindaákvæði, varðandi þingkosningarnar í 39. gr., framsalsákvæði og breytingar á stjórnarskrá í 113. gr. Það eru atriði sem maður hefur skilið sem svo að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi verið tilbúnir og teldu jafnvel rétt að kæmu fram í breytingum á stjórnarskrá við afgreiðslu þessa þings. Þess vegna kallar maður eftir því og saknar þess að sjá ekki í það minnsta einhverjar breytingartillögur eða innlegg af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í umræðuna, þó ekki væri annað en um þessi lykilatriði sem væntanlega verður mikil umræða um á næstu dögum í þingsal.