141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mér alltaf óljúft að valda hv. þm. Álfheiði Ingadóttur vonbrigðum. Ég teldi að ákvæði af þessu tagi væri þess eðlis að við hv. þingmaður gætum alveg örugglega náð saman um það frekar en margt annað í þessum stjórnarskrártillögum. Rótin að því að við bendum á þessa þætti er að manni finnst vandséð að þörf sé á ákvæði af þessu tagi í stjórnarskrá.

Það má velta fyrir sér hvort það var rétt skref sem stigið var 1995 að fella brott það ákvæði sem þá var en ég ætla ekki að gera tillögu um að horfið verði til baka. Ég held hins vegar, hæstv. forseti, að á hvorn veginn sem færi væri þetta ekki sá ásteytingarsteinn sem mundi koma í veg fyrir að við hv. þingmaður gætum náð saman um einhverjar breytingar á stjórnarskrá. Þar eru aðrir þættir mun mikilvægari í hugum okkar beggja, hygg ég.