141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er líklega vel við hæfi að áliti þeirra sem leggja fram þetta mál um stjórnskipun Íslands að það skuli vera rætt hér að kvöldi til, en það er alveg í takt við þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í þinginu. Ég sagði í dag að í Icesave-málinu hefði þetta verið samningur aldarinnar sem vinstri flokkarnir báru ábyrgð á og báru hana í þinginu alla leið, Icesave-samningur vinstri ríkisstjórnarinnar, Icesave-samningur Samfylkingar og Vinstri grænna. Ég sagði jafnframt að þingið hefði afgreitt fyrir ekki svo löngu rammaáætlun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar. Hún var tekin út úr miklu samráðsferli sem hafði staðið í tæp 14 ár og sett inn í þingið, henni breytt og horfið frá hinni víðtæku sátt sem hafði náðst um hana og var gerð að rammaáætlun vinstri flokkanna.

Við vitum örlög ESB-málsins. Inni liggur umsókn Íslendinga að Evrópusambandinu, umsókn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, en sem betur fer er nú farið að fjara mjög undan þeirri umsókn vegna ýmissa þátta og ekki hjálpar dómur EFTA-dómstólsins til við að Íslendingar renni hýru auga í átt að Evrópusambandinu.

Í kvöld ræðum við síðan í 2. umr. stjórnarskrá Íslands að nafninu til en þetta er frumvarp Samfylkingarinnar og Vinstri grænna til nýrrar stjórnskipunar Íslands.

Það skal tekið fram strax í upphafi að í gegnum allt það ferli sem ríkisstjórnin hefur komið af stað í stjórnarskrármálinu hefur aldrei nokkurs staðar í neinum lögskýringarplöggum, þingsályktunartillögum eða frumvörpum verið talað um að hér ætti að skrifa nýja stjórnarskrá. Í gegnum allt það ferli sem málið var sett í, en farið var yfir það í 1. umr., hefur ætíð verið talað um að hér ætti að breyta stjórnarskránni en ekki að skrifa nýja. Þetta verður að standa vörð um vegna þess að hér er gerð tillaga um að við hreinlega hendum lýðveldisstjórnarskránni okkar frá 1944 sem hefur staðist tímans tönn og við tökum upp splunkunýja stjórnarskrá sem komin er hér í frumvarpsform.

Virðulegi forseti. Sá merkilegi atburður gerðist í umræðunni í þinginu á mánudaginn þegar verið var að ræða dóm EFTA-dómstólsins þar sem Íslendingar höfðu fullan sigur gegn stórþjóðum, gömlum stórveldisþjóðum með meðalgöngu Evrópusambandsins sem blandaði sér inn í dómsmálið, að hæstv. utanríkisráðherra, vegna þess að hann situr hér í salnum, taldi að stjórnarskráin hefði staðist tímans tönn. Hann taldi að hún hefði staðist álagið og hægt var að byggja á henni þetta dómsmál enda eru flestir fræðimenn sammála um að stjórnarskráin okkar sé góð og hafi staðist tímans tönn. Það var ekki stjórnarskráin sem var völd að bankahruninu heldur aðrir þættir. Þess vegna er algerlega óskiljanlegt að við þurfum að ræða það í lok þessa kjörtímabils að lagt sé til á Alþingi að skrifa nýja stjórnarskrá og samþykkja hana. Þetta hefur Framsóknarflokkurinn margoft farið yfir og flokkurinn hefur lýst sig reiðubúinn og viljugan til að bæta þá fáu ágalla sem eru á stjórnarskránni sem í gildi er í góðri sátt við þingið. Stjórnarskrárbreytingar er ekki hægt að gera með litlum minni hluta eins og verið er að gera í þessu máli nú.

Það er tæpt á því að ríkisstjórnin haldi hér meiri hluta og í umræðunni í fjölmiðlum hefur sá spuni verið keyrður að kannski eigi að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórnina vegna atburða síðustu daga. En á sama hátt og litlu flokksbrotin á þingi styðja ríkisstjórnina í stjórnarskrármálinu styðja þau líka ríkisstjórnina komi til vantrausts. Því skal haldið til haga hvers vegna ríkisstjórn sem hefur fengið á sig hæstaréttardóm eftir hæstaréttardóm, hefur fengið á sig dóm alþjóðadómstóls, skuli enn sitja og telja sér trú um að hún hafi stjórn á landsmálum. Það er hreint með ólíkindum.

Þetta mál er keyrt áfram í mikilli meðvirkni. En við framsóknarmenn höfum lýst okkur reiðubúna og gerðum það snemma í ferlinu til að setjast niður með fulltrúum allra flokka á þingi og komast að samkomulagi um það hverju þurfi að breyta í stjórnarskránni. Við höfum lagt mikla og ríka áherslu á að það verði sett auðlindaákvæði í stjórnarskrána svo það sé alveg skýrt að auðlindir okkar séu varðar. Ég tel afar brýnt að það verði gert nú fyrir kosningar svo hægt sé að binda það í stjórnarskrá, sér í lagi á meðan þessi ógn vofir yfir okkur, umsóknin sem liggur inni hjá Evrópusambandinu. Við vitum alveg hvað Evrópusambandið ætlar sér hér á landi. Það er ekkert að sækjast í 330 þúsund skattgreiðendur eða réttara sagt, þeir eru náttúrlega langtum færri, líklega ekki nema helmingurinn af því. Við skulum frekar segja að það sé ekki að sækjast í 330 þúsund íslenskar sálir. Það er lega landsins sem það sækist eftir, það er hin nýja væntanlega auðlind okkar sem miklir möguleikar eru á að við séum um það bil að finna — þá er ég að vísa í olíuna. Við erum að tala um setu í Norðurskautsráðinu, við erum að tala um kalda vatnið, heita vatnið, fallorkuna og lengi má telja allar þær auðlindir sem við búum yfir. Við erum líklega ríkasta þjóð í heimi þegar kemur að auðlindum og það er afar brýnt að ákvæði um auðlindirnar fari inn í stjórnarskrá nú.

Við framsóknarmenn höfum einnig lagt áherslu á að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu komi inn í stjórnarskrá. Við teljum að það eigi að vera hægt að kalla til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu á annan hátt og að auki en gert er ráð fyrir í 26. gr. Það er afar gott að þessi öryggisventill sé hjá forsetanum — þá er ég að vísa í 26. gr. — en við erum líka reiðubúin til að skoða hvort það ætti að vera einhver ákveðin prósentutala landsmanna sem gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, og/eða minni hluti þingmanna þegar ríkisstjórn fer fram með miklu offorsi með lagasetningu. Það sé hægt að beita þessum þremur úrræðum. Þetta erum við tilbúin til að setjast niður og skoða og þetta fór inn í tilboð okkar í samtali við ríkisstjórnarflokkana fyrir jól, en hefur ekki verið sinnt.

Síðan tel ég afar brýnt að á einhvern hátt sé girt fyrir það brot á stjórnarskránni sem hefur átt sér stað við innleiðingar á EES-reglugerðum og þá er ég að tala um fullveldisframsalsákvæði með miklum girðingum. Það sem ég á við með því er að ef um minni háttar valdaframsal væri að ræða þyrfti kannski 2/3 þingmanna til að samþykkja það. Þá er ég að tala um venjulegar gerðir sem koma í gegnum EES-samninginn. Ef um meiri háttar valdaframsal væri að ræða þyrftu 2/3 hlutar þingmanna að samþykkja það og síðan kæmi bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla í kjölfarið. Landsmenn kæmu þannig alltaf að því þegar um meiri háttar framsal væri að ræða. Til útskýringar á þessu þá væri það þannig að hefði slíkt ákvæði verið í stjórnarskránni þegar EES-samningurinn var samþykktur hefði hann farið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Eins hefði verið með Schengen-samninginn og nú er það ESB. Það er orðið brýnt að setja svona ákvæði í stjórnarskrána, sér í lagi í ljósi þess að á kjörtímabilinu höfum við verið með ríkisstjórn sem hefur margoft sýnt að hún er ekki traustsins verð og hefur, má segja, talað gegn þjóðarhagsmunum. Það sannaðist í dómsuppkvaðningunni á mánudaginn.

Þessi ríkisstjórn var búin að tapa tveimur bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum. Þær þjóðaratkvæðagreiðslur voru bindandi vegna þess að um það var ákvæði í 26. gr. stjórnarskrárinnar. Ríkisstjórnin hafði tapað tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum sem voru þó bindandi. Hún hefði átt að sjá sóma sinn í því, strax í fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslunni, að skila umboði sínu en hún sat það af sér. Hún tapaði þjóðaratkvæðagreiðslu nr. tvö sem var bindandi og hefði átt að sjá sóma sinn í því að segja af sér en hún sat enn áfram. Nú í dómsmálinu sjálfu tapaði ríkisstjórnin því líka en situr enn.

Ég tel að það sé umhugsunarefni fyrir okkur landsmenn hvernig hægt er að hegða sér svona gagnvart kjósendum og landsmönnum öllum. Það er nánast sama hvað ríkisstjórnin er brotaviljug, hún ber aldrei ábyrgð. En ég minni á að það er stutt til kosninga og þá verður þjóðaratkvæðagreiðsla, þá verða alþingiskosningar. Þá tel ég nokkuð öruggt að landsmenn sem felldu báða Icesave-samningana komi til með að fella ríkisstjórnina á eftirminnilegan hátt því það hlýtur að koma fram í kjörkössunum að ríkisstjórnin verði send heim, að landsmenn taki sig til og gefi þessu fólki frí vegna þess að ríkisstjórnin ætlar augljóslega ekki að breyta taktinum frá því að hún tapaði tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum í Icesave.

Þetta verðum við að hafa í huga, sérstaklega í ljósi þess sem ég hef rætt um þjóðaratkvæðagreiðsluákvæðið. Á meðan stjórnarskráin er útbúin eins og hún er núna þar sem ekkert fullveldisframsalsákvæði er innan borðs má segja að ríkisstjórn sem ætlar að koma stefnumálum sínum í gegn með ofríki geti farið gegn vilja þjóðarinnar eins og málin standa núna. Segjum sem svo að núna lægi fyrir fullbúinn samningur frá ESB, hann færi í þjóðaratkvæðagreiðslu og Íslendingar mundu fella hann með miklum mun. Þá gæti ríkisstjórnin hunsað þá niðurstöðu því að sú þjóðaratkvæðagreiðsla væri einungis ráðgefandi, svipað og var með þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fór fram 20. október sl. Hún var ráðgefandi og þegar þjóðaratkvæðagreiðsla er ráðgefandi þurfa þingmenn ekki að fara að þeim vilja sem birtist í niðurstöðu hennar. Sumir hafa kallað ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu skoðanakönnun og það má kalla hana ýmsum nöfnum en þetta er munurinn á bindandi og ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslum og mikilvægt að hafa þetta í huga.

En ef við förum lengra með þetta og segjum að hér lægi fyrir samningur frá ESB og við hefðum ekki þann varnagla í stjórnarskrá að hægt væri að fara fram með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, hver væri þá eina von þjóðarinnar ef ríkisstjórnin mundi ekki lúta vilja meiri hluta hennar, ef það væri eins og nú er annar meiri hluti í þinginu en fyrir utan þinghúsið? Þannig hefur það verið um langa hríð. Þessi ríkisstjórn hangir sífellt á hjálp litlu brotaflokkanna. Ef upp kæmi sú staða að ríkisstjórnin færi gegn niðurstöðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um að fella ESB-samninginn væri eini kosturinn í stöðunni til að hindra að samningurinn tæki gildi að koma honum á einhvern hátt í frumvarpsform og hefja svo undirskriftasöfnun til að skora á forsetann að skrifa ekki undir lögin. Ég minni á að það er hægt að fara fram hjá þessu því forsetinn þarf ekki að staðfesta þingsályktunartillögu þannig að stjórnarskráin er opin að þessu leyti. Þess vegna bið ég Evrópusambandsandstæðinga að íhuga það vel að við getum tryggt enn frekar rétt okkar gagnvart ESB með því að setja fullveldisframsalsákvæði í stjórnarskrána. Ég hef heyrt þá gagnrýni þegar ég fór að ræða fullveldisframsalsákvæðið að það væri verið að liðka fyrir því að koma okkur inn í ESB, en rökin eru þau að það er verið að girða enn frekar fyrir það. Þess vegna legg ég ríka áherslu á þetta.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að rifja hér upp alla þessa sorgarsögu sem líklega kemur til með að kosta landsmenn 1.500 millj. kr. þegar upp verður staðið. Ég hef í gegnum tíðina spurst fyrir um kostnað við þetta klaufalega ferli sem málið hefur verið í og á ákveðnum tímapunkti í fyrrahaust nam kostnaðurinn 1.300 millj. kr. Það var eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Höfum það hugfast að þjóðaratkvæðagreiðsla kostar á bilinu 250–300 millj. kr. Eftir þann tíma var skipuð nefnd lögfræðinga sem fékk að sjálfsögðu greitt því að það er ekki hægt að ætlast til að allir komi að þessu í sjálfboðavinnu þó að allir þeir álitsgjafar sem hafa sent inn umsagnir til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og fyrir það ber að þakka, hafi gert það launalaust í frítíma sínum, bara til að benda á ágalla og reyna að bjarga því sem bjargað verður í frumvarpinu.

Ekki hefur heldur fengist svar við því hvað útafaksturinn með Feneyjanefndina kostar íslenska ríkið, þessi enn eina úthýsing á verkefninu. Allt í einu var tekin ákvörðun í flýti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd af meiri hlutanum um að úthýsa verkefninu til Feneyjanefndarinnar og það var svo sem aldrei rökstutt hvers vegna. Það var gerð sú krafa að Feneyjanefndin ætti að vera mjög fljót að því og skila fyrst bráðabirgðaáliti en endanlegt álit verður ekki komið fyrr en í lok mars. Íslensk stjórnvöld höfðu náttúrlega þennan íslenska stíl varðandi vinnu Feneyjanefndarinnar og vildu að hún ynni þetta í hvelli og ekki seinna en strax en ég hef ekki fengið svör við því hvað það kostar eða hvort íslenska ríkið þurfi að borga fyrir það sérstaklega. Ég hef spurt formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að því, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, og hún hefur ekki getað veitt mér þau svör, en ég veit að hún sem formaður nefndarinnar fór á fund Feneyjanefndarinnar. Við í stjórnarandstöðunni sóttum það stíft að fulltrúar okkar færu einnig út til að koma að sjónarmiðum okkar. Við því var ekki orðið og það er svo sem í stíl við vinnubrögðin í þessu máli. En svo kom Feneyjanefndin hingað heim og fór yfir málið í tvo daga að mig minnir og hitti meiri hluta og minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þá sem komu að samningu þessa frumvarps og er óþarft að fara yfir það.

Þegar upp er staðið tel ég að þetta komi til með að kosta um 1.500 millj. kr., virðulegi forseti. Og svo stefnir allt í að þetta verði ekki að nýrri stjórnarskrá Íslands því að það má halda því fram fullum fetum að þetta frumvarp hafi fallið út af borðinu um leið og Icesave-dómurinn var kveðinn upp. Þá kom í ljós að íslensk stjórnskipun stendur á góðum grunni og meira að segja ráðherrar í ríkisstjórninni eru farnir að hrósa núgildandi stjórnarskrá þannig að ekki virðist vera fullur einhugur innan ríkisstjórnarflokkanna um að fara þessa leið, enda er tíminn útrunninn. Tíminn er löngu útrunninn í þessu máli. Það er óraunhæft að halda að hægt sé að afgreiða þetta frumvarp á þeim þingdögum sem eftir eru, algerlega óraunhæft. Ég held að það væri til gæfu fyrir þjóðina, fyrir landsmenn alla, að ríkisstjórnin játi sig sigraða í þessu máli og viðurkenni að það náist ekki fyrir þinglok, fyrir kosningar, og þiggi hið góða boð Framsóknarflokksins um að setjast niður og skoða hvað sé nauðsynlegt að breyta í núverandi stjórnarskrá því að tíminn hvað það varðar er líka naumur.

Ef við ætlum að breyta þremur til fjórum lagagreinum þurfum við á öllum þeim tíma sem eftir er af þingstörfum að halda bara fyrir þann litla hluta, því að ein einasta setning í stjórnarskrá skiptir máli. Það má segja að hvert einasta orð skipti máli í lagatúlkun og í lögskýringargögnum vegna þess að þegar fólk er að sækja rétt sinn getur orðalag setningar skipt sköpum hvort mál tapist eða vinnist. Mér finnst ekki vera hugað að þessu. Það var ævintýralegt að vera á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar síðastliðinn laugardag. Það lá svo á að taka málið út úr nefndinni að þar var puttinn settur upp í loft og athugað í hvaða átt blés þann daginn, breytingartillögurnar lagðar fram og kynntar, þær 40 breytingartillögur sem liggja núna fyrir í þskj. 948. Áður hafði lögfræðihópurinn gert einar 74 eða 75 tillögur til breytinga á frumvarpinu. Ég verð því að segja að það er orðið harla lítið eftir af því frumvarpi sem stjórnlagaráð skilaði til þingsins og sem hv. þingmenn Valgerður Bjarnadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Róbert Marshall, Lúðvík Geirsson, Magnús Orri Schram og Margrét Tryggvadóttir lögðu svo fyrir þingið sem þingmannafrumvarp.

Það var krafa frá fulltrúum stjórnlagaráðs að engu yrði breytt. Mig minnir að sá aðili sem fékk flest atkvæði í þeim kosningum sem fóru fram á sínum tíma og voru dæmdar ólöglegar af Hæstarétti hafi gert þá kröfu að engu yrði breytt. Þjóðin hefði talað og frumvarpið ætti að fara umsvifalaust í þjóðaratkvæðagreiðslu og verða fellt eða samþykkt sem ný stjórnarskrá Íslands. Hvað segir þetta fólk í dag þegar meiri hlutinn sjálfur eða flutningsmenn þingmannafrumvarpsins hafa nú gert rúmlega 130 breytingar? Það þættu miklar og stórar breytingar í venjulegu frumvarpi og þetta eru náttúrlega enn þá stærri og veigameiri breytingar vegna þess að þetta er frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Þetta er frumvarp að nýrri stjórnarskrá.

En aðeins um fundinn á laugardaginn. Það lá svo mikið á að taka málið út úr nefndinni að haldinn var laugardagsfundur. Ég hef aldrei kvartað undan því að vinna og ætla ekki að byrja á því núna en ég verð bara að koma því að að ég hefði frekar viljað vera boðuð til fundar þar sem ætti að taka á skuldamálum heimilanna, frekar verið tilbúin að sitja laugardagsfund þar sem ræða ætti um hvernig væri hægt að skapa atvinnu og byggja upp samfélagið á nýjan leik í stað þess að ræða um þetta frumvarp. En það vakti athygli mína að þegar málið var tekið út úr nefndinni með öllum þessum breytingartillögum þá treysti einn flutningsmaður frumvarpsins sér ekki til að vera á nefndarálitinu eða breytingartillögum. Það var mjög athyglisvert.

Hv. þm. Róbert Marshall var fullur eldmóðs fyrir þessu frumvarpi á fyrri stigum fyrri þinga, lagði það fram sem einn af flutningsmönnum, en svo þegar taka átti málið út úr nefnd og inn í 2. umr. með nefndaráliti og breytingartillögum afþakkaði hv. þingmaður að vera á málinu með meiri hlutanum. Það vekur líka athygli, með tilliti til þess sem ég sagði um stuðning ríkisstjórnarinnar í byrjun ræðu minnar, að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir fylgir stjórnarmeirihlutanum í þessu máli, bæði sem flutningsmaður á frumvarpinu og hún er líka á nefndarálitinu og breytingartillögum. Ríkisstjórnin hefur því meiri hluta í málinu enda kom það m.a. fram í kvöldfréttum í gær að mig minnir að annar hv. þingmaður Hreyfingarinnar eða Dögunar eða Pírataflokksins, ég veit ekki alveg hvar þessir þingmenn eru staddir í dag, að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir taldi að hún mundi ekki samþykkja vantraust á ríkisstjórnina vegna þess að hún teldi að það væri svo mikilvægt að koma stjórnarskrárbreytingunum í gegnum þingið. Við vitum þá að ríkisstjórnin gæti haft meiri hluta í málinu en hins vegar heyri ég það á göngunum að margir í stjórnarliðinu sjálfu eru með óbragð í munni yfir þessu frumvarpi og þá er ég náttúrlega að vísa í þingmenn Vinstri grænna sem eru afar ósáttir við kosningakaflann.

Það kom stærðarinnar breytingartillaga á laugardaginn um kosningakaflann og hann var einfaldaður að einhverju leyti. En áður en ég fjalla um hann er náttúrlega mjög merkilegt að hingað komi breytingartillögur í 40 liðum beint inn í 2. umr. og minni hlutanum gefið afar lítið svigrúm til að skrifa minnihlutaálit um það plagg. Hér eru lagðar fram 40 breytingartillögur sem hafa ekki fengið efnislega umræðu neins staðar. Það er ekki búið að prenta upp frumvarpið með breytingum svo að fólk átti sig betur á hvað þetta þýði í raun og sann og ekki er farið að kalla sérfræðinga fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að fara yfir breytingartillögurnar sem voru settar inn á laugardaginn.

Breytingartillögurnar koma héðan og þaðan. Með sumum eru breytingar lögfræðihópsins færðar til baka og tillögur stjórnlagaráðs settar inn aftur að einhverju leyti. Sumar hafa komið fram hjá hinum nefndum þingsins, þ.e. þeim sem skiluðu inn breytingartillögum. Sumar nefndirnar skiluðu bara nokkurs konar yfirlýsingu eða ábendingum um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þyrfti að skoða hitt og þetta sem ekki var gefinn tími til. Ein nefndin fékk ekki einu sinni að kalla til sín gesti. Ég gef því heldur lítið fyrir það víðtæka samráð sem talað var um, að allir þingmenn skyldu fá að koma að þessu, ég gef sama og ekkert fyrir það vegna þess að vinnubrögðin eru svo einkennileg.

Þá er best að ég fari aðeins yfir kosningakaflann sem ég hef gagnrýnt mjög vegna þess að hann er að mínu mati óframkvæmanlegur. Mig langar til að lesa þá breytingu sem orðið hefur á honum samkvæmt nýjustu útgáfu af plagginu. Þetta er sem sagt nýjasta breytingartillagan en 39. gr. á að orðast svo, með leyfi forseta:

„Á Alþingi eiga sæti 63 þingmenn, kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára.

Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt eftir því sem frekast er unnt.

Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi.

Listar eru boðnir fram í kjördæmum. Þeir mega vera óraðaðir eða raðaðir samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum. Frambjóðandi má vera á fleiri en einum lista sömu stjórnmálasamtaka.

Kjósandi getur valið lista eða einstaka frambjóðendur í persónukjöri. Í lögum má ákveða hvort og í hvaða mæli megi velja frambjóðendur af fleiri en einum lista.

Úthlutun þingsæta skal vera í sem fyllstu samræmi við atkvæðastyrk stjórnmálasamtaka, lista og frambjóðenda.

Í kosningalögum skal mælt fyrir um hvernig stuðla skuli að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi. […]“

Þessi regla sem þarna á að setja í stjórnarskrá er óframkvæmanleg. Það er ekki hægt að setja svona grein í stjórnarskrá. Þarna er verið að blanda saman persónukjöri þvert á lista, jöfnun atkvæðisréttar og lagt til að frambjóðandi, eins og hægt er að skilja þetta, sitji á landslista og á kjördæmalista. Svo dettur nú botninn úr þessu í lokamálsgreininni. Ég tek það fram áður en ég held áfram að ég er mikill jafnréttissinni og vil veg kvenna sem mestan í stjórnmálum en það er ekki hægt að mæla fyrir um að það skuli vera jafnt hlutfall karla og kvenna á Alþingi.

Þegar búið er að fara í fyrsta lagi í gegnum persónukjör í kjördæmi og í öðru lagi búið að framfylgja reglunni um jöfnun atkvæðisréttar og þeirri reglu sem hér er um úthlutun þingsæta eru kjósendur búnir að segja hvern þeir vilji sem sinn mann. Ég spurðist mikið fyrir um það hvort þetta þekktist í heiminum; að röðun kynja væri breytt í lokin þegar kosningaúrslit lægju fyrir. Þegar búið væri að fara í gegnum persónukjör og búið að jafna atkvæðisrétt hvernig væri þá hægt að fara að krukka í úrslitum sjálfra alþingiskosninganna. Það kannast ekki nokkur einasti maður við þetta í fræðasamfélaginu og gat ekki nefnt eitt einasta dæmi frá nokkru einasta ríki þar sem þessi regla þekktist. Þá kom upp úr dúrnum að þá ætti bara fara leiðina sem var farin í stjórnlagaráðskosningunum. Ef áberandi fleiri væru af öðru kyni og það ætti að jafna hlutfall kynjanna ætti bara að bæta við þingsætum. En virðulegi forseti, það kemur ekki fram í tillögunni hvort þingmenn geti kannski orðið 75 eða 80 eftir því hvernig kynjahlutföllin eru. Þetta er eitt sem ég tek sérstaklega út úr breytingartillögunum vegna þess að því miður er það svo að eftir yfirferð meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er verið að færa málin mjög í verra horf. Og þó fékk frumvarpið mjög mikla gagnrýni er það kom fyrst fyrir þingið. Við henni hefur ekki verið brugðist.

Í fyrsta lagi var sífellt verið að úthýsa málinu úr þinginu. Í öðru lagi fór mjög mikill tími hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í að kalla til sín sérfræðinga sem sögðu álit sitt á ákveðnum lagagreinum. Það var mjög góð yfirferð, en nefndin fékk aldrei að fara í efnislega umræðu um þau álit og þær skoðanir sem komu fram fyrir nefndinni. Svo hefur málið verið rekið þannig að tæpast hefur farið fram efnisleg umræða um ákveðnar lagagreinar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Því var síðan lofað eftir 1. umr. að ítarleg efnisleg umræða færi fram um málið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd því að hún hefur það hlutverk samkvæmt þingsköpum að fjalla um málefni stjórnarskrárinnar. Nei, þá var tekin ákvörðun um það rétt fyrir jól að úthýsa verkefninu einu sinni enn til allra nefnda þingsins. Það vita allir að flestar nefndir þingsins eru á kafi í vinnu í lok nóvember og byrjun desember vegna fjárlagafrumvarpsgerðar og annarra mála sem þarf að klára fyrir jól. Nei, þá datt þessum snillingum í hug að senda frumvarpið til allra nefnda þingsins og það setti þingstörfin á hvolf eins og við var að búast.

Svo átti að krefja nefndirnar um að skila inn álitum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir jól því að keyra átti málið áfram í sama flýtinum. Það kom að sjálfsögðu í ljós að málið var allt of umfangsmikið til þess. Þarna var búið að búta tillöguna niður á níu til tíu nefndir, eftir því hverjar við köllum fastanefndir og hverjar ekki — þarna er ég t.d. að vísa í þingskapanefnd og forsætisnefnd. Það var svo mikil vinna við þessa litlu búta sem fóru til nefndanna að allar nefndirnar báðu um frest fram yfir áramót. Ekkert var fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að gera og aðgerðaleysið tók við þar sem við þurftum að bíða eftir því að nefndirnar skiluðu af sér. Þetta er afar einkennilegt.

Þegar meiri hlutinn í þinginu ákvað að úthýsa þessu til nefndanna — þetta var gert í ljósi þess að allir þingmenn ættu að koma að frumvarpinu eins og þeir kæmu ekki að því í umræðum, en þetta var niðurstaða meiri hlutans — var talað um að þegar þær hefðu skilað af sér fengi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd málið til sín. Þá ættum við að fara efnislega í tillögur og athugasemdir nefndanna og til að við gætum áttað okkur betur á breytingartillögum og ábendingum þeirra ættum við að geta kallað til okkar sérfræðinga sem gæfu álit sitt á þeim breytingum sem verið væri að gera á frumvarpinu.

Þessu var hafnað því að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar taldi að sú vinna sem fór fram í fastanefndunum hefði verið fullnægjandi til að gera breytingar á stjórnarskránni. Því eru átta til tíu nefndir búnar að skila nefndaráliti hver um aðra þvera. Hafi komið fram mikil gagnrýni áður á frumvarpið varðandi samfellu í lagatexta og réttaráhrif í dómaframkvæmd er það nú komið í mun verra horf. Þarna eru áhersluatriði sem passa ekki við lagatextann eins og hann var fyrir. Það má segja að búið sé að henda út um gluggann vinnu lögfræðihópsins sem var fenginn til að lesa frumvarpið yfir og gera — mig minnir að hæstv. forsætisráðherra hafi kallað það lagatæknilegt álagspróf, og það hefði staðist prófið ef ég man þetta rétt, ég er að rifja upp hvað hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sagði um þetta.

Það er búið að rústa þeirri vinnu, búið að slíta í sundur frumvarpið eins og það kom frá lögfræðihópnum. Ég tek það fram að lögfræðihópurinn vann mjög gott starf en hann hafði bara svo takmarkað umboð og hafði ekki ráðrúm til að gera efnislegar breytingar. Í skilagreininni voru þó margar ábendingar til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um efnisleg atriði sem þyrfti að breyta. Nú hefur þessari vinnu verið rústað. Þarna er búið að eyða ríkisfé og vinnu þessara sérfræðinga og það er ekkert sem stendur eftir vegna þess að það er búið að krukka svo mikið í málið á ný. Það sést best á þessu breytingartillöguskjali, þskj. 948, þar sem lagðar eru til 40 breytingartillögur við frumvarpið eftir að lögfræðihópurinn hefur gefið tæknilegt lögfræðilegt álit á því. Maður er svo gáttaður á þessu að það þarf sterk bein til að standa í þessari vitleysu.

Það vantar svo mikla lögfræði í frumvarpið og það vantar útfærslu á lagagreinunum, enda hefur komið fram mikil gagnrýni á það. Ég tek það fram að þegar frumvarpið var fyrst lagt fram las ég fyrstu tíu blaðsíðurnar í greinargerðinni en sá svo náttúrlega að hún passaði ekkert við frumvarpsdrögin sem skilað var fyrst til þingsins. Ég sagði bara sannleikann, að þetta passaði ekki saman og það þyrfti að skrifa nýja greinargerð. Ég man nú eftir látunum í kringum það þegar ég talaði hreint út í málinu og sleppti þeirri meðvirkni sem hefur verið ríkjandi í málinu frá upphafi. Það varð allt vitlaust yfir því. Svo var þetta skrifað upp á nýtt. Lögfræðihópurinn var fenginn til þess að skrifa nýja greinargerð. Af tillitssemi við þá aðila sem sömdu frumvarpið var farin sú leið að búa til söguskýringu á því hvað stjórnlagaráð hefði hugsanlega verið að gera. En eins og ég hef sagt þá byggjast frumvörp upp á lögfræði en ekki sagnfræði og heimspeki.

Greinargerðin sem fylgir því frumvarpi sem nú liggur fyrir byggir meira á sagnfræði og heimspeki en nokkurn tímann lögfræði. Enda hafa komið aðilar fyrir nefndina sem segja að greinargerð frumvarpsins sé á mörkunum að vera tækt lögskýringargagn í dómsmáli og að greinargerðina verði að skýra. Þá spurði ég í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd: Hvernig ætlið þið að finna út úr þessu? Það er búið að leggja fram frumvarp, breyta því eftir áliti lögfræðihópsins sem tók að sér að gera þetta lögfræðilega álagspróf og það er að fara til 2. umr. Hvernig á að bjarga málinu og hvernig á að koma að nýrri greinargerð með því? Það voru engin svör við því.

Hér er greinargerðin enn þá og byggist á sagnfræði. Frumvarpið með greinargerðinni er eins og hér má sjá, það er gaman að segja frá því, upp á 252 blaðsíður. Ef setja á eitthvað undir þann leka sem er í greinargerðinni, þá söguskýringu sem þar er að finna, kemur það þá fram á framhaldsnefndaráliti eða í breytingartillöguskjali? Virðulegi forseti. Þetta eru handarbakavinnubrögð, sérstaklega af því að hér um að ræða frumvarp að nýrri stjórnarskrá Íslands. Svo er markmið núverandi ríkisstjórnar að vanda lagasetningu.

Ég ætla að minna á að í þinginu liggur frumvarp frá mér, hefur legið hér öll þau ár sem ég hef verið þingmaður, um að stofna lagaskrifstofu Alþingis til að svona slys gerist ekki í lagasetningu, að við þingið sé lagaprófessoraráð sem grípi í taumana á fyrri stigum. Hugsið ykkur ef þetta ráð hefði verið komið í Icesave-lagasetningunni. Það hefði nú heldur betur litið öðruvísi út. Hér stóð maður í þinginu og benti á lagaleg rök um að okkur bæri ekki lagaleg skylda til að koma þessum skuldum á herðar íslensku þjóðarinnar. Það var alveg sama hvað var barist í þinginu og á þetta bent, ekki var hlustað á það. Ef hér hefði verið lagatæknileg skrifstofa sem hefði úrskurðað um þetta hefðum við aldrei þurft að fara í þetta dómsmál, við hefðum ekki einu sinni þurft að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta hefði verið afgreitt í þinginu þegar hæstv. þáverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon kom heim með Svavarssamninginn. Hann hefði ekki einu sinni orðið grundvöllur að neinu lögskýringarplaggi, frumvarpi eða þingsályktunartillögu því að málið hefði verið stoppað áður en til þess kæmi.

Viðbrögð hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur við frumvarpi mínu um lagaskrifstofa Alþingis urðu til þess að stofnuð var lagaskrifstofa við forsætisráðuneytið sem enginn skilur í. Mér skilst að þar sé búið að koma á fimm stöðugildum. Þegar frumvörp koma frá ráðherrum til 1. umr. í þinginu eiga þau að hafa farið í gegnum þann lagatæknilega glugga sem lagaskrifstofur eiga að vera. Þingið fær svo málið til umfjöllunar og til breytinga o.s.frv., þannig að vinna lagaskrifstofu forsætisráðuneytisins nær bara yfir frumvörp sem ráðherra leggur fram. Þetta frumvarp hér er þingmannamál, það er lagt fram af þingmönnum. Það er ekki ríkisstjórnarmál.

Það vantar því lagaskrifstofu til að styrkja stoðir Alþingis. Ég lít þetta mjög alvarlegum augum, sérstaklega í ljósi þess að hér er verið að fjalla um stjórnarskrá Íslands. Í dómaframkvæmd er stólað mjög á stjórnarskrána og svo það sé sagt þá á stjórnarskrá að verja réttindi borgaranna fyrir ofríki stjórnvalda. Það er því mikið í húfi fyrir þegna þessa lands að stjórnarskránni sé breytt af skynsemi, sé breytt á löngum tíma og að yfirlögðu ráði en ekki með þessari fljótaskrift sem hér er og setur stjórnkerfið okkar í loft upp eins og fram hefur komið. Það er búið að breyta málinu svo mikið og ekki búið að samlesa það þannig að það er á engan hátt tækt til þinglegrar meðferðar eins og það er núna.

Til viðbótar þeim 252 blaðsíðum sem frumvarpið með greinargerð er skilaði meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, flutningsmenn að frádregnum hv. þm. Róbert Marshall, nefndaráliti. Það er upp á 187 blaðsíður. Hv. þingmenn Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal, fyrsti minni hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, skiluðu nefndaráliti upp á 111 blaðsíður. Hér er breytingartillaga frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar upp á fimm blaðsíður. Ég er með nefndarálit upp á eina blaðsíðu. Þannig að, virðulegi forseti, samtals eru þau lögskýringargögn sem komin eru fram í málinu í byrjun 2. umr. upp á rúmar 550 blaðsíður.

Þegar stjórnarskrá er breytt eru gerðar breytingartillögur að yfirlögðu ráði. Greinargerð fylgir með hverri grein, ekki söguskýringar, og þetta er haft eins klippt og skorið og skýrt og hægt er til að skapa ekki réttaróvissu. Þessi frágangur málsins sýnir bara hvað málið er komið á slæman stað. Og enn er boðað að hér komi framhaldsnefndarálit milli 2. og 3. umr. og breytingartillögur. Þá má gera ráð fyrir einhvers konar greinargerð eða breytingartillögum þegar Feneyjanefndin skilar af sér. Þannig að tímaglasið er úti. Tímaglasið er tómt. Það sjá allir að þetta gengur ekki. Það sjá allir að tíminn er útrunninn.

Þess vegna er sorglegt að horfa upp á það að tími þingsins fari í það yfir höfuð að ræða þetta í stað þess að við setjumst niður, fulltrúar allra flokka í þinginu, og komumst að niðurstöðu um hvaða greinum þarf að breyta í núgildandi stjórnarskrá og hvaða ákvæði þurfa að koma inn í hana. Þetta er komið út í svo mikla vitleysu. Það liggur við að það sé ekki hægt að taka þátt í þessu. Þetta sjá allir, en eins og ég hef komið að áður er þetta mál keyrt áfram af mikilli meðvirkni, með lokað fyrir bæði augu. Eins og sagt var í dag undir liðnum um störf þingsins: Þetta er farið að minna nokkuð mikið á Icesave-málið. Þá voru málin keyrð á nóttunni og á kvöldin, keyrð áfram, ekki hlustað á rök minni hlutans, ekki hlustað á lögfræðinga og sérfræðinga, keyrt áfram með lokuð augu, málið tapað, beitt hótunum til samþykktar frumvarpanna. Það er alveg sami hluturinn að gerast. Málin fara hring eftir hring hjá þessari ríkisstjórn.

Ef þetta frumvarp verður að lögum fyrir vorið, sem verður ekki vegna tímaskorts, minni ég meiri hlutann á að stjórnarskrárbreytingar taka ekki gildi fyrr en að afloknum þingkosningum, nýtt þing þarf að samþykkja frumvarpið óbreytt svo að stjórnarskráin taki gildi. Þess vegna skiptir svo miklu máli að breyta stjórnarskrá í sátt sem flestra, mikils meiri hluta, til að það sé tryggt að eftir alþingiskosningar treysti þeir stjórnmálaflokkar sem samþykktu frumvarpið á fyrra þingi sér til að samþykkja það á nýja þinginu. Það er út af því sem þessi regla er í gildi, virðulegi forseti. En vinstri flokkarnir eru búnir að tapa meiri hlutanum í þinginu og treysta á flokksbrot. Og hvað gerist eftir kosningar? Er búið að hugsa þessa hugsun til enda?

Ætlar þessi ríkisstjórn að láta það verða sína eftirskrift, eftir þetta hörmungarkjörtímabil þar sem hún hefur stjórnað, búin að fá á sig hæstaréttardóma, búin að fá á sig dóm alþjóðlegs dómstóls í máli þar sem átti að þröngva himinháum greiðslum yfir á skattborgarana. Ætlar hún að bæta því á perlufestina sem hangir um hálsinn á henni að nýtt þing þurfi að fella frumvarp til stjórnarskipunarlaga? Það skyldi þó ekki vera. En við skulum sjá hvort hún hafi úthald allt kjörtímabilið. Sem betur fer styttist í kosningar. Það eru ekki nema um 20 þingdagar eftir af þinginu. Mér kemur svo sem ekkert á óvart miðað við hvernig framgangurinn hefur verið í þinginu hjá þeim hv. þingmönnum sem skipa þessa ríkisstjórn og eru ráðherrar. Miðað við stemninguna eins og hún er í dag virðist vera að þeim sé alveg sama um það. Ég fer betur yfir þetta, virðulegi forseti, í nefndaráliti mínu sem ég ætla að lesa í lok ræðu minnar.

Þetta er staðan. Ég lít það alvarlegum augum að úr því að frumvarpið var sett í lagatæknilegt álagspróf eins og það var kallað að búið sé að umbylta því á nýjan leik með þessum breytingartillögum.

Þeir aðilar sem hafa sent inn umsagnir við frumvarpið skipta tugum. Lítið hefur verið hlustað á flesta þeirra þannig að það sé sagt. En ég þakka öllu því góða fólki fyrir sem hefur lagt sig í líma við að senda inn umsagnir og koma með ábendingar og tillögur að breytingum vegna þess að það hefur áhyggjur af málinu. Það er skemmst frá því að segja að lítið tillit hefur verið tekið til umsagna þeirra. [Kliður í þingsal.] Að mínu mati kom einstaklega góð umsögn frá Ágústi Þór Árnasyni, deildarformanni lagadeildar Háskólans á Akureyri.

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður þingmenn í hliðarsal að gefa hljóð í þingsalinn.)

Ég var að hefja nýjan kafla í ræðu minni, um afburðagóða umsögn sem barst frá Ágústi Þór Árnasyni, deildarformanni lagadeildar Háskólans á Akureyri og Skúla Magnússyni, dósent við lagadeild Háskóla Íslands til nefndarinnar. Þetta er einstaklega góð umsögn vegna þess að þessir aðilar voru kosnir í nefnd sem var kölluð stjórnlaganefnd að mig minnir — ég ætla að fletta upp á þessu, það þarf að hafa svo mörg skjöl með í þessari ræðu. Jú, þeir voru kosnir á grundvelli laga nr. 90/2010 í stjórnlaganefnd sem var ætlað að undirbúa og standa að þjóðfundi um stjórnarskrármálefni þar sem kallað yrði eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings um stjórnskipan landsins og stjórnarskrá og breytingar á henni. — Þarna kemur þetta aftur fram, það átti að gera breytingar á stjórnarskrá en ekki að skrifa nýja stjórnarskrá.

Stjórnlaganefnd átti að vinna úr upplýsingum sem söfnuðust á þjóðfundinum og afhenda stjórnlagaþingi þegar það kæmi saman. Í öðru lagi átti nefndin að annast söfnun og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna og upplýsinga um stjórnarskrármálefni sem nýst gætu stjórnlagaþingi.

Á þeim tímapunkti þegar þessi nefnd var sett saman í fullri sátt allra þingmanna á þingi, því að þetta voru aðilar sem allir treystu og höfðu reynslu af stjórnskipunarmálum og öðru, var til gríðarlegt magn upplýsinga um stjórnarskrármálefni og stjórnarskrárbreytingar. Það var komið fram á árið 2007 þegar nefnd undir stjórn Jóns Kristjánssonar, fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins, var nánast búin að ná heildarsátt um breytingar á stjórnarskránni. Það sprakk á sínum tíma en sú nefnd bjó yfir gríðarlegum upplýsingum. Þegar farið var af stað 2010 var því gríðarlegt magn upplýsinga til og stjórnlaganefnd var falið að safna öllum þeim gögnum saman og búa til úr því hálfgerðan gagnagrunn sem átti að leggja fyrir stjórnlagaþing sem síðan var kosið en Hæstiréttur ógilti kosninguna.

Í þriðja lagi átti nefndin að leggja fram hugmyndir til stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskránni — breytingar, tek það aftur fram. Úr því ég er búin að nefna tvo í þessari nefnd ætla ég, með leyfi forseta, að lesa upp hina aðilana sem voru kosnir í nefndina af Alþingi. Það voru Aðalheiður Ámundadóttir, Björg Thorarensen, Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Guðrún Pétursdóttir, Njörður P. Njarðvík, ásamt þeim Skúla Magnússyni og Ágústi Þór Árnasyni.

Þessi nefnd vann gríðarlega gott starf enda fagfólk í hverju sæti. Það tók starf sitt svo alvarlega að meira að segja kom það fram með tvær tillögur að breytingum á stjórnarskrá. Þar fór nefndin eftir því erindisbréfi sem henni var falið og kom fram í lögum um stjórnlagaþing, nr. 90/2010, að hún skyldi koma með breytingartillögur. Það var aðeins mismunandi útfærsla á þeim tillögum en þær voru mjög skynsamlegar. Þar var rökstutt í greinargerð hvers vegna ákveðnar breytingar voru lagðar til, það fylgdi með skýr lögskýringartexti.

Það er í raun sorglegt að hugsa aftur í tímann, til þessa ferlis sem málið fór síðan í. Stjórnlagaþing er kosið, Hæstiréttur ógildir kosninguna, þeir einstaklingar sem voru kosnir á stjórnlagaþing voru kosnir af Alþingi með minni hluta atkvæða þingmanna því það voru 30 sem samþykktu þá kosningu. Þegar stjórnlagaráð kom saman gerði það því miður ansi lítið með tillögur stjórnlaganefndar. Þar voru raunverulega komin drög að breytingum á stjórnarskránni sem hefði lítið þurft annað en að fá álit á og umsagnir. Ef svo hefði verið gert væru þessi mál í langtum betra horfi, sérstaklega vegna tímans, því þá hefði verið hægt að taka tillögurnar beint inn og fá fræðimenn til að segja álit sitt á þeim í stað þess að draga þetta fram eftir öllu kjörtímabilinu með öllum þeim gríðarlega kostnaði sem fylgt hefur þessari hugmynd hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Það hefði verið hægt að spara mikinn pappír, vinnulaun og tíma og orku með því að fara þá leið sem stjórnlaganefnd lagði til.

Ég minni á að stjórnskipunarvaldið er Alþingis. Stjórnskipunarvaldið er annað en lagasetningarvaldið. Stjórnskipunarvaldið kemur frá fólkinu í landinu, það kýs sér alþingismenn og við búum við fulltrúalýðræði Þetta er margra áratuga gömul hefð sem hefur verið viðurkennd úti um allan heim. Lagasetningarvaldið kemur beint frá fólkinu í landinu því að það velur sér sína 63 fulltrúa á löggjafarþingið.

Það vill nefnilega oft gleymast að stjórnskipunarvaldið er annað en lagasetningarvaldið. Hvorki lagasetningarvaldinu né stjórnskipunarvaldinu er hægt að úthýsa úr þinginu. Þess vegna hef ég verið mjög gagnrýnin á það reglugerðafargan sem hefur verið í seinni tíð í lagasetningu, þ.e. að nánari útfærsla laga sé í reglugerð. Ég er mjög á móti því þá er verið að færa ráðherrum og embættismönnum lagasetningarvaldið. Þessu þarf að breyta því að það er ákveðin lagaleki út úr þinghúsinu. Stjórnskipunarvaldið er hins vegar það sem ég fór yfir áðan, það er í höndum 63 þingmanna og þeirra síðasta verk þegar þingi er slitið á kjörtímabili er að samþykkja frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Síðan er boðað til þingkosninga.

Segjum að endurnýjun á þingi í þeim alþingiskosningum séu 30 þingmenn, að það komi 30 nýir þingmenn til starfa auk þeirra sem halda áfram. Þeirra fyrsta verk er að greiða atkvæði um frumvarp að stjórnarskipunarlögum frá fyrra þingi. Með tilkomu þessara 30 nýju þingmanna er stjórnskipunarvaldið orðið 93 þingmenn. Það er eins og þeir sem keyra þetta mál áfram átti sig ekki á þessu. Björninn er ekki unninn þó að þessu frumvarpi verði neytt í atkvæðagreiðslu. Björninn er ekki unninn, breytingar á stjórnarskrá verða ekki að veruleika nú þótt við verðum pínd hér áfram dag og nótt. Ekki skal standa á mér að vinna á nóttunni eins og í Icesave-málinu og fleiri málum. Ekki skal standa á mér, en það er eins og þessir aðilar átti sig ekki á hvað felist í því að setja landinu nýja stjórnarskrá. Það hefur bersýnilega komið í ljós.

Ég er ekki spennt fyrir því, virðulegi forseti, að heyja næstu kosningabaráttu undir þeim formerkjum að fá fólk til að átta sig á því að við þurfum að fella frumvarpið verði það að lögum á nýju þingi. Mér finnst ekki eftirsóknarvert að þetta mál verði skilið eftir í upplausn, með stuðningi svo lítils minni hluta, og þurfa svo að gefa það út að maður ætli sér að fella frumvarpið á nýju þingi. Það er ekkert eftirsóknarvert þegar hér ganga tugir þúsunda manna atvinnulausir. Eitthvað af fólkinu er farið frá okkur úr landi. Heimilin eru skuldug. Það er alltaf að verða meira neyðarástand hjá hjálparstofnunum. En þetta er áhersluatriðið hjá ríkisstjórninni. Kallaði hún sig ekki norræna velferðarríkisstjórn í upphafi þegar hún tók til starfa?

Þetta er sárgrætileg forgangsröðun hjá ríkisstjórn sem hafði öll tækifæri til að sýna og sanna að hennar tími væri kominn, til að sýna að það væri hægt að standa við stóru orðin, til að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir gæti sýnt fram á það að hún hefði talað fyrir þetta fólk síðastliðin 35 ár á þingi. Alltaf var hún að hugsa um lítilmagnann, alltaf að reyna að koma með jafnréttisáherslur, alltaf að tala fyrir aldraða og öryrkja, barnmargar fjölskyldur, um húsnæðismálin. Nei, því miður er búið að glutra tækifærunum niður og flestir landsmenn sjá hvað ríkisstjórninni hefur tekist illa upp við að forgangsraða.

Virðulegi forseti. Ég hef oft talað um það í kaldhæðni og spurt: Hver borðar stjórnarskrána? (Gripið fram í: Borðar?) Haldið þið, ágætu þingmenn, að fólk sem hefur gengið um atvinnulaust, kannski frá bankahruni, hefur misst ofan af sér húsnæðið, er kannski búið að missa bílinn og er mjög fátækt og á varla fyrir mat, sé að hugsa um hvort hægt sé að breyta stjórnarskránni eða hvort það sé nauðsynlegt að fá nýja stjórnarskrá? Þetta eru svo rangar áherslur. Ég hef bent á að ríkisstjórninni er algjörlega ómögulegt að forgangsraða í þágu fólksins í landinu.

Eins og ég kom inn á áðan þá nálgast kosningar sem betur fer. Þá verður stóra þjóðaratkvæðagreiðslan, þá verður stóri lýðræðissigurinn unninn, þá fær fólkið að kjósa ríkisstjórnina í burtu og sýna andstöðu sína við stjórnvöld eins og í síðustu tveimur bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum í báðum Icesave-samningunum.

Virðulegi forseti. Hérna er nefndarálitið, ég ætla að fara hratt yfir það, með leyfi forseta:

„Annar minni hluti harmar tilraunir ríkisstjórnarinnar til að setja landinu nýja stjórnarskrá í krafti lítils meiri hluta alþingismanna. Hingað til hafa breytingar á stjórnarskrá verið lagðar fram og samþykktar í sátt í þinginu. Komið hefur glöggt í ljós að stjórnskipun ríkisins er í föstum farvegi og byggist á traustum grunni. Komin er góð dómaframkvæmd á réttindi borgaranna sem bundin eru í stjórnarskránni gagnvart ríkisvaldinu. Réttarstaðan er því skýr.

Annar minni hluti telur að nokkrar nauðsynlegar breytingar þurfi að gera á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sem mikil sátt mundi nást um væri vilji til þess hjá stjórnvöldum, nú í lok þessa kjörtímabils. Hér er nefnt að binda auðlindaákvæði í stjórnarskrá, ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og ákvæði um fullveldisframsal. Hefur Björg Thorarensen lagaprófessor ráðlagt utanríkismálanefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í þeim efnum varðandi minni háttar og meiri háttar fullveldisframsal.

Annar minni hluti telur þetta þingmannafrumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands svo gallað að ekki sé gerlegt að leggja fram breytingartillögur við það án þess í raun að skrifa nýtt frumvarp með fullbúinni greinargerð. Þá eru þær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram af meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ekki til bóta og geta í raun leitt til réttindamissis borgaranna gagnvart ríkisvaldinu. Þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í þessu máli eru óásættanleg og íslenska löggjafanum til minnkunar. 2. minni hluti varar við að frumvarpið verði samþykkt og tekur þar undir með aðilum úr fræðasamfélaginu og sérfræðingum sem hafa tjáð sig í ræðu og riti. Einnig bendir 2. minni hluti á þá staðreynd að þrátt fyrir að frumvarpið verði samþykkt með naumum meiri hluta á þessu þingi þá þarf nýtt þing að samþykkja frumvarpið óbreytt eftir kosningar til að ný stjórnarskipunarlög taki gildi. Þess vegna er brýnt að mikil sátt ríki um breytingar á stjórnarskrá. Verði frumvarpið fellt á nýju þingi væri það í fyrsta sinn í lýðveldissögunni sem nýkjörnir þingmenn þyrftu að grípa til þess neyðarúrræðis, vegna ofríkis fyrri stjórnvalda.

Annar minni hluti ítrekar þá skoðun sína og vilja að til að ná sátt sé ráðlegt að fulltrúar allra flokka flytji þingsályktunartillögu fyrir þinglok (Forseti hringir.) sem tryggi áframhaldandi vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar á komandi kjörtímabili.

Alþingi, 29. janúar 2013.

Vigdís Hauksdóttir.“