141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður sagði hér í ræðu sinni, ég hef sagt það og er þeirrar skoðunar að stjórnarskráin hafi í Icesave-málinu sýnt að hún er sterkt tæki. Það breytir ekki hinu að ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að bæta hana og að það sé hægt með þeim tillögum sem fyrir liggja.

Á sínum tíma tel ég að það hafi verið hárrétt ákvörðun hjá tveimur fyrri ríkisstjórnum að ráðast í samningaleiðina í Icesave-málinu, hún var forsenda þess að hægt væri að brjóta Íslandi leið út úr þeirri úlfakreppu sem hrunið leiddi þjóðina í. Hún var forsenda þess að hægt væri að fá þá fjárhagslegu alþjóðlegu fyrirgreiðslu sem aftur var undirstaða efnahagsáætlunar Íslands sem leiddi til þess efnahagsbata og þeirrar endurreisnar sem við höfum síðan orðið vitni að.

En að sama skapi, í ljósi niðurstöðunnar á mánudag, er líka óhjákvæmilegt að draga þá ályktun að það hafi verið rétt hjá Indefence að fara í sína baráttu og jafnrétt hjá forseta Íslands að beita málskotsrétti sínum. Ég tel að það væri óviturlegt að álykta annað í ljósi atburðarásarinnar. Stjórnarskráin leiddi hins vegar markmið beggja þessara andstæðu krafta í sama farveg og hún tryggði að markmið beggja náðust vegna þess stjórnskipulega tækis sem felst í málskotsréttinum. Hvort tveggja náðist.

Fjárhagsfyrirgreiðslan sem var undirstaða endurreisnarinnar samhliða því sem Ísland þurfti ekki vegna málskots, þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem á eftir fylgdi og dómsins á mánudag, að greiða vexti á höfuðstól Icesave-lánanna. Þannig tel ég að stjórnarskráin hafi leitt saman ólík markmið sundurleitra krafta sem báðir höfðu hagsmuni Íslands að leiðarljósi. Það var galdur stjórnarskrárinnar. Það var þessi magíski kraftur samstöðunnar sem hún leiddi fram. Þess vegna tel ég að hún hafi staðist prófið, en ég vil samt bæta hana.