141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hæstv. utanríkisráðherra erum ekki oft sammála, en ég er sammála hæstv. ráðherra þegar hann segist vilja bæta stjórnarskrána. Það vil ég líka gera. Það vill þingflokkur Framsóknarflokksins gera. Því höfum við talað fyrir allt þetta kjörtímabil að bæta þá stjórnarskrá sem er í gildi, stjórnarskrá lýðveldisins, nr. 33/1944. Þess vegna tel ég að hæstv. utanríkisráðherra hafi gefið ákveðið ljós á að hægt sé að fara með þetta í samningaferli hér í þinginu og slá það út af borðinu vegna tímaskorts, það er ekki tækifæri til þess að setja nýja stjórnarskrá. Ég tel að það sé ekki verkefni okkar þingmanna. Ég skal svo sannarlega vera fremst í flokki með að bjóðast til að koma hæstv. utanríkisráðherra til hjálpar í því máli og reyna að tala þingmenn hans inn á þá lausn. Það sjá allir að tímaglasið er tómt. Tíminn er runninn frá okkur til þess að halda áfram með þetta mál í þessum farvegi.

Ég er hins vegar ekki sammála hæstv. utanríkisráðherra með það að þarna hafi sameinaðir kraftar orðið til þess að svo hagstæð niðurstaða náðist í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum, alls ekki. Því hefði verið ákvæði í stjórnarskránni sem er sambærilegt ákvæði 3. mgr. 11. gr. stjórnarskrárinnar, sem hljóðar á þá leið að ef þingið lýsir yfir vantrausti á forseta Íslands, hver sem hann er nota bene, þurfi til þess aukið afl atkvæða í þinginu og sú ályktun skuli fara strax í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sé þjóðin ekki sammála þinginu og vilji ekki losna við forsetann eins og þingið, fer þingið heim og þá skal rakleiðis boðað til kosninga.

Þetta ákvæði vantaði vegna 26. gr. í fyrstu atkvæðagreiðslunni um Icesave. Þegar ríkisstjórnin tapaði málinu fyrir þjóðinni 98:2 átti að boða tafarlaust til kosninga.