141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nú hálfslegin yfir þessu andsvari þegar hæstv. utanríkisráðherra lýsir því hér yfir úr ræðustól, þegar örfáir starfsdagar eru eftir í þinginu, að þetta eigi að vera eina málið á dagskrá. Hæstv. ríkisstjórn er nú búin að fá á sig dóm alþjóðadómstóls um að gengið hafi verið gegn rétti Íslendinga. Hún hefur fengið á sig hæstaréttardóma vegna starfa sinna. Aldrei hefur þessu fólki dottið í hug að standa upp úr ráðherrastólum sínum og hleypa fólki að, öðru fólki sem ber hag þjóðarinnar fyrir brjósti sér eins og til dæmis við í Framsóknarflokknum varðandi hag heimilanna, skuldaniðurfellingar og uppbyggingar atvinnu.

Hér hefur því verið lýst yfir af ráðherra úr ríkisstjórninni, virðulegi forseti, að þetta mál eigi að vera eina málið á dagskrá fram að kosningum. Ég segi: Landsmenn vita þá hvað þeir hafa í þessari ríkisstjórn. Ég get ekki annað en lýst vonbrigðum mínum með þessi orð ráðherrans því að ég hélt að eftir dóm EFTA-dómstólsins mundi þessi ríkisstjórn taka sig saman í andlitinu og fara að sýna eitthvað sem skipti máli.