141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa spurningu frá hv. þm. Ólöfu Nordal. Ég hafði ekki ráðrúm til að tala um mannréttindakaflann í ræðu minni, en kem til með að gera það hér síðar í umræðunni.

Það er hreint með ólíkindum að stjórnlagaráð hafi séð sig knúið til að taka upp mannréttindakafla sem kom inn í stjórnarskrána 1995 og dómaframkvæmd er komin á og raunverulega hefur öllum spurningum varðandi mannréttindi hér á landi verið svarað; hafi skapast réttaróvissa í kringum það þegar þessi ákvæði fóru í stjórnarskrána í mikilli sátt, sátt allra flokka, þá voru málin vandlega unnin. Þetta var gert í ljósi þess að mannréttindasáttmáli Evrópu var búinn að taka gildi og þetta var uppfærsla á því og réttindi Íslendinga tryggð með því og sýnt fram á að mikill og ríkur vilji væri hjá stjórnvöldum að Íslendingar mundu njóta sömu mannréttinda og íbúar ESB-landanna.

Það er því alveg ótrúlegt að ráðist hafi verið í þessar breytingar. Umboðsmaður Alþingis hefur gagnrýnt þetta mjög mikið. Sumir fræðimenn hafa bent á að með þessum breytingum sé jafnvel verið að færa réttindi til baka, að landsmenn njóti verri réttinda á sumum sviðum miðað við núgildandi stjórnarskrá. Ég get bara ekki tekið þátt í þannig lagasetningu að verið sé að skerða mannréttindi miðað við þau sem við þó höfum.

Svo fléttast þetta líka inn í þessa tískuhugmynd með þessi þriðju kynslóðar réttindi sem var ríkur vilji hjá stjórnlagaráði að setja inn í þessa stjórnarskrá umræðulaust. Til útskýringar eru þriðju kynslóðar réttindi í stuttu máli einhver framtíðarsýn, einhver stefnumörkun, stefnumál til framtíðar um samspil umhverfis, dýra og náttúru. Þannig að þetta er nú allt ægilega skrýtið.