141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:46]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er rétt, það eru miklir pappírar sem fylgja þessu máli. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir nefndi það að pappírarnir losuðu nú 500 prentaðar síður. Þar af er hálf síða frá fulltrúa Framsóknarflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum í hana. (Gripið fram í: … sig sjálf.)

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lagði fram frumvarp að nýjum stjórnarskipunarlögum um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands skömmu eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október sl. í þeim búningi sem sérfræðihópur sem fenginn hafði verið til þess að fara yfir frumvarpið skilaði því, að undanteknu því ákvæði sem sneri að stöðu þjóðkirkjunnar, sem í þjóðaratkvæðagreiðslunni menn ákváðu að hrófla ekki við og við það var staðið.

Strax við 1. umr. um málið var því lýst yfir að markmiðið væri að allir þingmenn kæmu að vinnu við frumvarpið og það tókst, herra forseti. Allar fastanefndir þingsins og þingskapanefnd hafa fjallað um þær greinar sem heyra til verksviðs hverrar nefndar. Nefndirnar hafa kallað til sín gesti. Þær hafa farið yfir sérfræðiálit. Þær hafa skilað álitum, bæði meirihlutaálitum og minnihlutaálitum, til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Sú nefnd hefur síðan fjallað um málið í heild og tekið þessi álit og vinnu fastanefndanna til vandlegrar yfirferðar og athugunar og flytur nú fjölmargar breytingartillögur frá þeim nefndum.

Þess er þó að geta að þær breytingartillögur eru í góðu samræmi við mörg þeirra álita og umsagna sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fengið sem og aðrar nefndir þingsins. Það á við í reynd um athugasemdir sem hafa borist nefndinni allt frá því stjórnlagaráð afhenti forseta Alþingis tillögur sínar eða frumvarp sitt að nýjum stjórnarskipunarlögum í júlí 2011.

Eins og hér hefur komið fram er endanlegri umfjöllun um þau ákvæði sem snúa að stjórnskipan landsins, þ.e. forseta, ráðherra og ríkisstjórn og ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur, ólokið. Þar er beðið eftir áliti Feneyjanefndarinnar, enda er það á sérsviði hennar.

Ég vil nota tækifærið og ítreka það sem kemur fram í nefndarálitinu að nefndin er reiðubúin til og mun halda áfram að funda um málið eftir því sem tími gefst til frá umræðum og mun skoða jafnóðum sjónarmið og ábendingar sem fram koma, jafnt um breytingar og málsmeðferð eins og þar segir.

Ég vil nota tækifærið og þakka ágætlega málefnalega umræðu hér í dag. Ég er sannfærð um að við sem stöndum að þessu meirihlutaáliti munum taka allri gagnrýni vel og við fögnum öllum tillögum um það sem betur má fara.

Þetta er mikilvægur áfangi og enn einn á grýttri braut sem við höfum verið að feta býsna lengi, þingmenn fyrr og nú. Það hillir undir verklok í þessari lotu. Ég vona svo sannarlega að það skili sé í nýrri stjórnarskrá fyrir vorið og að nýtt Alþingi sem kosið verður í apríl væntanlega muni staðfesta þær breytingar.

Það eru nokkur önnur álitaefni sem við bíðum niðurstöðu í eða viljum ræða frekar. Ég vil nefna sérstaklega það sem segir í auðlindaákvæðinu í 34. gr. um „fullt gjald“. Það þurfum við að vinna betur eins og berlega kemur fram í álitinu.

Um breytingartillögurnar almennt má segja að nefndin hefur haft það að leiðarljósi í vinnu sinni að fylgja þeim anda sem er í tillögum stjórnlagaráðs og virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar frá 20. október sl. Þess vegna hefur meiri hlutinn breytt nokkrum ákvæðum til baka til upphaflegra tillagna eða orðalags stjórnlagaráðs. Það byggist einnig á þeirri afstöðu að rík efnisleg rök þurfi til að breyta út frá orðalagi þeirra tillagna, það á ekki síst við um 34. gr., auðlindaákvæðið, sem ég ætla að gera að sérstöku umræðuefni á eftir. Þar var tiltekið orðalag lagt fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu og hlaut stuðning yfir 80% kjósenda, sem sé hvort náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu skuli vera eign þjóðarinnar.

Varðandi það atriði segir í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, eins og ég sagði áðan, að ríkar efnislegar ástæður þurfi að liggja fyrir breytingum á ákvæðum — í ljósi þess var umrædd grein samþykkt með afgerandi hætti í atkvæðagreiðslunni — og að breytingar sem eru gerðar á slíkum atriðum eigi fyrst og fremst að vera til þess að styrkja inntak einstakra ákvæða í samræmi við markmiðslýsingu stjórnlagaráðs. Það er einmitt það sem við reyndum að hafa í heiðri við þessa vinnu. Ég verð að segja það, af því að ég ætla að fjalla sérstaklega um náttúruauðlindirnar, að þar leituðumst við við að túlka allan vafa almannaréttinum í hag fremur en sérréttindum.

Formaður nefndarinnar, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, fór rækilega yfir breytingartillögur meiri hlutans en lét mér eftir að fjalla sérstaklega um ákvæði sem lýtur að þjóðareign á náttúruauðlindum og tengdum ákvæðum. Ég vil vekja athygli á því að á bls. 113 og fram á bls. 134 í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er að finna umsagnir, ítarlega og vel unnar umsagnir, frá meiri hluta og tveimur minni hlutum umhverfis- og samgöngunefndar. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur tekið undir mörg þau sjónarmið sem koma fram í áliti meiri hlutans og flytur nokkrar breytingartillögur við þær greinar.

Ég vil fyrst víkja að 32. gr. Sú grein fjallar um menningarverðmæti, og er nýmæli. Þar er að finna það nýmæli að í stjórnarskrá verði staðfest að þjóðminjar og fornhandrit í þjóðareigu megi hvorki eyðileggja né afhenda til eignar eða varanlegra afnota, selja eða veðsetja. Í skýringum stjórnlagaráðs kemur fram að í þessu ákvæði sé að finna eins konar speglun á ákvæðinu í 34. gr. þar sem kveðið er á um náttúruauðlindir í eigu þjóðarinnar.

Bæði umhverfis- og samgöngunefnd og allsherjar- og menntamálanefnd fjölluðu sérstaklega um þetta ákvæði 32. gr. og þau sérfræðiálit og margar athugasemdir sem borist hafa við það ákvæði. Þeim athugasemdum fræðimanna, þar á meðal umboðsmanns Alþingis, er öllum sammerkt að þar er mikill misskilningur á ferð, sá misskilningur að ákvæði um þjóðareign feli í sér einhvers konar eignarnámsheimild og að ákvæðið fjalli um minjar sem eru í einkaeigu en ekki í þjóðareigu þó að það standi þar, svo sem eins og verðmæt bókasöfn einstaklinga, jafnvel nafngreindra.

Við fjölluðum talsvert um þetta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég vil fyrst nefna að auk þessa atriðis, að þetta næði til einkaeignar, taldi meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar að skýra þyrfti betur hvernig ætti að fara með menningarverðmæti, svo sem fornhandrit sem eru í einkaeign. Vísað er til þess að hugtakanotkun í ákvæðinu, þar sem fjallað er um þjóðareign sem tilheyrir íslenskum menningararfi, sé ekki í samræmi við lög nr. 80/2012, um menningarminjar. Þar er væntanlega átt við 2. gr. laganna um þjóðminjar og þjóðarverðmæti, þ.e. þjóðarverðmæti en ekki þjóðareignir. Í greininni er að finna skilgreiningu á þjóðminjum og þjóðarverðmætum sem geta verið ýmist í eigu hins opinbera, svo sem eins og á söfnum, eða einstaklinga, félaga og fyrirtækja eins og segir í skilgreiningunni.

Vegna athugasemda frá umboðsmanni Alþingis er rétt að fram komi að í þeim lögum, nr. 80/2012, er ákvæði um að ekki sé heimilt að flytja úr landi innlendar eða erlendar menningarminjar sem teljast til þjóðarverðmæta.

Ég vil árétta þá niðurstöðu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að dýrmætar þjóðminjar og fornhandrit sem eru í eigu þjóðarinnar, eins og þarna segir, og tilheyra íslenskum menningararfi — í nefndarálitinu stendur, með leyfi forseta, „dýrmætar þjóðareignir sem tilheyra íslenskum menningararfi.“ Meiri hlutinn áréttar að þessu leyti að þjóðminjar sem eru í eigu þjóðarinnar geta aldrei samkvæmt því verið eða talist í einkaeigu og þannig háðar einkaeignarrétti. Slíkir munir sem eru í einkaeigu verða því ekki „þjóðareignir“ nema sá sem á eignarrétt yfir þeim afsali sér honum til þjóðarinnar með sölu, arfi eða gjöf svo þjóðareign yfir hlutnum stofnist, hvort heldur er um að ræða handrit eða þjóðminjar. Þá kemur þetta ákvæði í gildi að það megi hvorki eyðileggja né afhenda til eignar eða varanlegra afnota, selja eða veðsetja.

Menn hafa hér farið mikinn og sagt að ekki hafi verið tekið tillit til umsagna og ábendinga sem borist hafa frá fræðasamfélaginu, sérfræðingum eða aðilum eins og umboðsmanni Alþingis. Að sjálfsögðu var farið vandlega yfir öll þessi atriði. Dæmið sem ég er hér að rekja er að umsagnir allra þessara aðila byggðust á misskilningi. Þeim ruglingi að horfa á orðið þjóðareign eins og það stendur í tillögunni og blanda því saman við orðið þjóðarverðmæti eins og það er skráð í 2. gr. laga nr. 80/2012.

Ég árétta að ákvæðið fjallar ekki um muni sem eru í einkaeigu. Þeir munir verða ekki þjóðareign nema eignarréttinum sé afsalað yfir til ríkisins eða þjóðarinnar.

Frú forseti. Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar benti á í umsögn sinni að hugsanlega mundi það styrkja ákvæðið ef það næði einnig til fágætra náttúrugripa og er þar vísað til 15. gr. laga nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Með fágætum náttúrugripum er, eins og segir í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, átt við hvers kyns jarðefni, steingervinga, steindir, egg, hami og aðrar náttúruminjar svo fremi sem þær hafi einstakt menningar-, sýningar- eða fræðslugildi um íslenska náttúru sem nauðsynlegt er að veita sérstaka vernd. Ég árétta að hér er átt við fágæta náttúrugripi í eigu þjóðarinnar.

Meiri hlutinn tekur undir þá ábendingu og leggur því til breytingar á ákvæðinu og enn fremur að fyrirsögn ákvæðisins breytist.

Frú forseti. Ef tillaga meiri hluta nefndarinnar verður samþykkt mundi 32. gr. hljóða eitthvað á þessa leið. Fyrirsögnin væri: Menningar- og náttúruverðmæti. Greinin hljóðaði svo: Fágætir náttúrugripir og dýrmætar þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi, svo sem þjóðminjar og fornhandrit, má hvorki eyðileggja né afhenda til eignar eða varanlegra afnota, selja eða veðsetja.

Ég ætla aðeins að koma að 33. gr. vegna þess að hún er gríðarlega mikilvæg. Þar er nokkuð ítarlegt ákvæði sem er ætlað að auka vernd náttúrunnar, kveða á um meginreglur sjálfbærrar þróunar og tryggja rétt almennings til ákveðinna umhverfistengdra gæða. Þarna er um að ræða markmiðsyfirlýsingu, 3. stigs mannréttindi, sem hér hefur verið rætt um. Þetta er eins konar yfirlýsing sem tekur til sambúðar lands og þjóðar og felur í sér, eins og kemur fram í athugasemdum við frumvarpið og í tillögum stjórnlagaráðs, að náttúra Íslands hafi annars vegar gildi sem slík og sé hins vegar uppspretta auðæfa og lífsgæða.

Í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar er ítrekað að hér sé á ferð grundvallarheitstrenging sem eigi heima í stjórnarskrá því að menn hafa rætt um það að hugsanlega eigi ákvæði af þessu tagi ekki heima þarna og jafnvel ekki í mannréttindakaflanum. Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar telur að grundvallarheitstrenging sem þessi eigi þarna heima í samræmi við alþjóðlega þróun í mannréttindamálum en ekki síður í samræmi við gamla íslenska hefð um virðingu fyrir náttúrunni til lands og sjávar. Eðlilegt sé að gera ráð fyrir að þátttakendur í samfélaginu séu bundnir af slíkri meginreglu, á svipaðan hátt og menn gangast undir grunnreglur á öðrum sviðum.

Undir þetta tekur meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Við gerum ekki breytingartillögur við 33. gr.

Frú forseti. Þá er ég komin að 34. gr.

Ég nefndi það við 1. umr. að líklega eiga allir þingmenn og kannski allir landsmenn sér einhverja uppáhaldsgrein eða uppáhaldsákvæði, eitthvert ákvæði í stjórnarskránni, sem er þeim hjartfólgnara en önnur. Í núgildandi stjórnarskrá er engin ákvæði að finna um náttúruauðlindirnar og eignarrétt þjóðarinnar á þeim. Það er mikið metnaðarmál náttúruverndara og hefur verið um áratugaskeið að breyta því ástandi. Það er svo komið að allir flokkar hafa á einhverju stigi lýst yfir stuðningi við að í stjórnarskrá verði tekið ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum. Og margoft hefur í þeirri umræðu og tillögugerð, sem er rakin í öllum gögnum málsins sem við höfum undirliggjandi þessari umræðu, orðið „þjóðareign“ verið notað í þessu sambandi, og það er miður ef menn ætla nú að hverfa frá stuðningi við þetta. Ég hef hlustað grannt eftir því bæði í umræðum hér í dag og annars staðar að menn eru allt í einu mjög uppteknir af því að velta upp einhverjum vafa og efasemdum um þjóðareign. Menn vísa þar til virtra prófessora sem telja að það hugtak hafi enga merkingu. En það hefur haft merkingu í íslenskum lögum frá árinu 1928. Á árinu 1928 voru sett lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum, en þar er landið friðlýst sem „ævinleg eign íslensku þjóðarinnar“ og kveðið á um að það megi aldrei selja eða veðsetja. Sambærilegt ákvæði er að finna í 1. gr. laga nr. 47/2004, um þjóðgarðinn á Þingvöllum.

Í vinnu auðlindanefndar sem skilaði af sér merkri skýrslu á árinu 2000 er byggt á lagaákvæði um þjóðareign á Þingvöllum við skilgreiningu á hugtakinu þjóðareign, og við tillögugerð um að tekið skuli í stjórnarskrá nýtt ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Hefur iðulega verið vitnað til þeirrar skýrslu við gerð tillagna um að auðlindaákvæði líkt því sem hér um ræðir verði sett í stjórnarskrá.

Skýrsla auðlindanefndar frá árinu 2000 er ekkert lítið plagg. Það er í rauninni grunnrit sem hefur verið notað síðan. Ég verð að segja að það er miður að auðlindalögin frá 1998 hafa ekki verið endurskoðuð með tilliti til þess grunns sem hér er, en í tillögum og öðrum lögum sem síðan hafa verið sett, m.a. á árinu 2006, hefur einmitt verið byggt á skilgreiningum og vinnu nefndarinnar.

Ég vil leyfa mér að geta þess að í þeirri nefnd sem var skipuð í júní 1998 áttu sæti:

Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, sem var formaður, Eiríkur Tómasson, prófessor sem nú er hæstaréttardómari, sem var varaformaður, Ari Edwald, Lúðvík Bergvinsson, Margrét Frímannsdóttir, Guðjón Hjörleifsson, Ragnar Árnason, Svanfríður Jónasdóttir, Styrmir Gunnarsson.

Ég þarf ekki að telja upp fyrir þingmönnum hvaða einstaklingar þetta eru. Þetta eru allt þjóðþekktir einstaklingar sem í tvö ár lögðu á sig gríðarlega mikla vinnu við að skila þeirri skýrslu sem er tæplega 200 blaðsíðna löng. Þar er tillaga um nýtt stjórnarskrárákvæði sem byggir á vinnu nefndarinnar. Ákvæðið sem nefndarmenn leggja til í þeirri nefnd er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.“

Þetta var tillagan sem auðlindanefndin lagði fram árið 2000.

Eins og ég rakti þegar ég taldi hverjir hefðu verið í þeirri nefnd voru þetta ekkert vondir stjórnlagaráðsmenn eða einhverjir vinstri villingar. Þetta er bara skynsamleg tillaga unnin af mikilli yfirvegun. Síðan eru liðin 11 eða 12 ár. Núna þegar við erum með þetta ákvæði í höndunum eins og stjórnlagaráð skilar því, þá er um nákvæmlega sömu hugtök að ræða. Það er byggt á nákvæmlega þessari hugsun, nema að í tillögum stjórnlagaráðs, og því sem umhverfis- og samgöngunefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eru sammála um, er ekki gert ráð fyrir því að nýtingarheimild njóti verndar sem óbein eignarréttindi.

Í reynd verðum við að muna eftir því þegar við skoðum þetta ákvæði að því er ekki ætlað að taka af skarið í deilum um eignarrétt á auðlindunum í fortíð eða nútíð. Það hlýtur að verða og er verkefni dómstóla. Stjórnarskrárákvæði tekur til framtíðar, tekur til frá og með þeim degi sem stjórnarskráin er samþykkt öðru sinni.

Ég vek athygli á því að það er fleira sem við sækjum í smiðju til auðlindanefndar, þar á meðal breytingartillögu á 72. gr. sem ég kem aðeins að á eftir.

Við gerum nokkuð margar breytingartillögur á þessari annars stuttu grein. Fyrir þá sem eru með frumvarpið fyrir framan sig ætla ég að leyfa mér að lesa, með leyfi forseta, hvernig ákvæðið mun líta út ef breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar verða samþykktar. Hefst þá lesturinn. 34. gr. Náttúruauðlindir.

„Auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru í einkaeigu eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Sama máli gegnir um eignarréttindi sem taka til vatns, jarðhita og jarðefna í eigu ríkisins eða ríkisfyrirtækja. Enginn getur fengið auðlindirnar og réttindin eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindanna og réttindanna í umboði þjóðarinnar.

Til þjóðareignar skv. 1. mgr. teljast nytjastofnar og aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, vatn og önnur þau náttúrugæði sem ekki eru í einkaeigu, svo sem vatnsafl, jarðhiti og jarðefni í þjóðlendum. Í eignarlöndum takmarkast réttur til auðlinda undir yfirborði jarðar innan eignarlanda við venjulega hagnýtingu fasteignar. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, sem og annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignar eða óafturkallanlegs forræðis.“

Þarna er um talsvert miklar breytingar að ræða. Við förum til baka til orðalags stjórnlagaráðs eins og það var lagt fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslunni og segjum að auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru í einkaeigu séu sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar, en sérfræðingahópurinn hafði lagt til að þarna væri um að ræða auðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti.

Eins og lesa má í áliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar tökum við undir það álit umhverfis- og samgöngunefndar að ekki sé eðlilegt að breyta þessu bara til að breyta því. Röksemdirnar sem eru gefnar fyrir því að breyta eigi orðunum „í einkaeigu“ yfir í „háð einkaeignarrétti“ eru margvíslegar. Þær rekja sig eins og ég nefndi áðan aftur til tillagna auðlindanefndar frá árinu 2000. Þeim var líka ætlað, samkvæmt upplýsingum sérfræðinga sem fyrir nefndirnar komu og þeim gögnum sem við höfum, að taka af allan vafa um það að eignir sveitarfélaga féllu ekki undir þetta, land í eigu sveitarfélaga félli ekki undir þessi ákvæði. En það var hængur á. Sá hængur er á að með því að tiltaka að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu í eigu þjóðarinnar, þá er í reynd verið að taka undan þjóðareigninni allar þær auðlindir sem ríkið á, sem við eigum sameiginlega, og hefur verið fyrir komið í hlutafélögum eða ríkisfyrirtækjum.

Ég get nefnt vatnsréttindin í neðri hluta Þjórsár sem Landsvirkjun var afhent með bréfi fyrir nokkrum árum. Ef ákvæðið stæði óbreytt eins og það kom frá sérfræðingahópnum mundu þau eignarréttindi falla utan þjóðareignarinnar. En staðreynd er að í dag er þetta þjóðareign. Þjóðin á þessar eignir þó svo að ríkið hafi komið þeim fyrir í hlutafélaginu Landsvirkjun.

Til áréttingar á þessu skjótum við inn setningunni: „Sama máli gegni rum eignarréttindi sem taka til vatns, jarðhita og jarðefna í eigu ríkisins eða ríkisfyrirtækja.“

Til ítrekunar eru bæði auðlindirnar og réttindin, það sem auðlindanefndin nefndi landsréttindi en er í rauninni vatnsréttindi, jarðhitaréttindi og námaréttindi, sett inn.

Loks bætum við við einni setningu í fyrstu málsgreinina. Það er enn og aftur með tilvísun til skýrslu auðlindanefndar frá árinu 2000 og vegna ítrekaðra ábendinga um að nauðsynlegt sé að taka fram hver fari með þær auðlindir sem eru lýstar í eigu þjóðarinnar. Þá segir hér, með leyfi forseta:

„Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindanna og réttindanna í umboði þjóðarinnar.“

Næsta breyting sem við gerum á þessu ákvæði, frú forseti, varðar niðurfellingu orðanna „utan netlaga“. Í tillögum sérfræðinefndarinnar var þessum tveimur orðum bætt inn. Þar sagði, með leyfi forseta:

„Til þjóðareignar samkvæmt 1. mgr. teljast nytjastofnar og aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, utan netlaga, …“ — Síðan kemur upptalningin á öðrum auðlindum.

Í nefndaráliti meiri hlutans er bent á að sú afmörkun þjóðareignar, að hún nái til nytjastofna og auðlinda hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu utan netlaga, er hvorki í samræmi við gildissvið gildandi laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, þar sem lýst er yfir sameign þjóðarinnar á Íslandsmiðum sem skilgreind eru sem hafsvæðið allt frá fjöruborði, né heldur gildissvið lagafrumvarpa um sama efni sem lögð hafa verið fram á Alþingi síðustu missiri.

Þessi breyting sem sérfræðihópurinn gerði hefur verið rökstudd með tilvísan til laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, en þar er kveðið á um eignarrétt landeigenda á auðlindum á sjávarbotni innan netlaga. Við leggjum til í ljósi þess sem ég sagði áðan að við hverfum aftur þar sem vafi leikur á til orðalags stjórnlagaráðs og við leggjum til að orðin „innan netlaga“ falli niður, enda sé enginn rökstuðningur fyrir því í þessum gögnum að takmarka eigi þjóðareignina með þessum hætti á nytjastofnum eða öðrum auðlindum sjávar.

Frú forseti. Það er enn ein breyting, viðbót, sem við tökum hér inn, það er þessi setning: „Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.“ Þetta var upphaflega í tillögum stjórnlagaráðs, en sérfræðingahópurinn lagði til að setningin yrði felld brott með þeim rökum að hún væri óþörf þar sem þjóðareign á auðlindum undir yfirborði jarðar í þjóðlendum væri ótvíræð samkvæmt ákvæðinu, og í eignarlöndum tilheyri slíkar auðlindir eiganda samkvæmt auðlindalögum.

Álit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar í þessu efni er mjög afdráttarlaust. Ég ætla ekki að lesa það allt. Þar er vísað til hagsmunareglunnar sem felur í sér að eignarráðin nái svo langt niður sem nauðsynlegt er til að landeigandi geti haft þau not af landi sínu sem heyra til venjulegrar hagnýtingar á eignarrétti yfir fasteign. Og það er það sem segir hér í tillögunni. Nefndin taldi að með þeirri hagsmunareglu séu í reynd dregin mörk milli réttinda landeiganda og almennings því þar sem réttindum landeiganda sleppir hljóti að taka við einhvers konar almenningur.

Meiri hlutinn lagði til að þessi setning sem stjórnlagaráðið hafði inni bættist við. Með því móti er hagsmunareglan viðurkennd sem meginregla en viðmiðinu við tiltekna dýpt þó haldið inni með því að kveða megi á með lögum um þjóðareign undir tiltekinni dýpt.

En það er áréttað að með áskilnaði um tiltekna dýpt er ekki átt við eina dýptarreglu, t.d. 200 eða 1000 m, heldur yrði tiltekin dýpt metin hverju sinni í lögum miðað við þá tegund auðlindar sem um væri að ræða og jafnvel þær sérstöku aðstæður sem fyrir hendi kynnu að vera til nýtingar.

Frú forseti. Ég er enn í 34. gr. og á aðeins eftir að fjalla um eitt atriði í henni. Það er hugtakið „fullt gjald“ sem er að finna í 4. mgr. Í umfjöllun allra aðila, bæði nefnda og sérfræðinga, hefur verið bent á að tilvísun stjórnlagaráðsins til eignarnámsákvæðis stjórnarskrárinnar, sem er þá í 13. gr. í frumvarpinu, sé villandi þar sem eignarnámsbætur eru bætur fyrir missi eignar en ekki gjald vegna nýtingar hennar. Að mati stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar felst ákveðin mótsögn í skýringum stjórnlagaráðs annars vegar þegar vísað er til bóta vegna eignamissis og hins vegar vegna markaðsverðs. Nefndin gerði nokkrar tilraunir til að koma hinni nýju hugsun eða hugmynd um hlutdeild í auðlindarentu inn í þetta orðalag, en niðurstaða okkar varð sú að við yrðum að vinna það betur og nauðsynlegt væri að skýra ákvæðið nánar. Á þessu stigi leggjum við því ekki til neinar breytingar á þessu orðalagi. En markmiðið er að tryggja að gjaldið sem auðlindanefndin talaði um og hér er kallað fullt gjald sé hlutdeild þjóðarinnar eða samfélagsins í þeim umframarði sem skapast af veitingu sérleyfa til nýtingar auðlindarinnar, þ.e. hlutdeild í auðlindarentunni. Við munum, vonandi, fá góðar tillögur, kannski í þessari umræðu.

Frú forseti. Ég ætla aðeins að geta þess að við leggjum til breytingu á 72. gr. í samræmi við það sem hér hefur verið rakið varðandi 34. gr. Það er sú grein þar sem fjallað er um eignir og skuldbindingar ríkisins og er samsvarandi 40. gr. stjórnarskrárinnar. Við leggjum til að þar bætist við: „Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila.“ Þetta orðalag er nákvæmlega það sem auðlindanefndin lagði til á árinu 2000.

Frú forseti. Ég heyri að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir er orðin áfram um það að ég ljúki máli mínu. (VigH: Nei.) Þætti mér nú gott að gera henni það til geðs. (Gripið fram í.)

Það er mikið gleðiefni að við skulum hafa náð svo langt að vera komin í 2. umr. um frumvarp að nýrri stjórnarskrá lýðveldisins. Ég tek undir það sem hæstv. utanríkisráðherra sagði í andsvari í kvöld: Við höfum tímann ef við viljum nota hann, en þá skulum við líka vera sammála um að nota hann á málefnalegan hátt eins og þessi umræða hefur verið í kvöld. Við erum hér til þess að hlusta, nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og við munum svo sannarlega taka öllum hugmyndum og tillögum vel.