141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:25]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ekki splunkunýtt ákvæði. Meginhlutinn af máli mínu áðan fór í að sýna fram á að það ákvæði sem hér um ræðir, 34. gr. í frumvarpinu, er að stofni til frá árinu 2000 eða fyrr. Þangað eru sóttar allar hugmyndir og orðalag og meira að segja þær orðalagsbreytingar og viðbætur sem varða að löggjafar- og framkvæmdarvaldið fari með forsjárvörslu og ráðstöfunarrétt. Það er ekkert splunkunýtt í þessu.

Það sem meira er, af því að hv. þingmaður spyr um aðkomu sérfræðinga, þá liggja í rauninni fyrir gríðarlega mörg og mikil álit allra þeirra fræðimanna sem hún nefndi, hvort heldur er á sviði eignarréttar eða auðlindaréttar.

Mig langar bara að segja að þær breytingartillögur sem við erum að gera eru allar til þess fallnar að styrkja með einum eða öðrum hætti þjóðareignina, almannaréttinn sem er markmiðið með ákvæðinu. Ég veit að Framsóknarflokkurinn og fulltrúar hans hafa í gegnum tíðina flutt tillögur sama efnis og hafa ekki gert athugasemdir við orðalag eða hugtakanotkun eins og þá sem hér er notuð. Þetta er viðurkennt og ekkert splunkunýtt eða byltingarkennt við það. Það kann að vera að mönnum finnist við svolítið ítarleg í þessu en allur er varinn góður og við viljum heldur segja of en van þegar kemur að almannarétti. Ég skora á hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að fylgja okkur í þessu.