141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:30]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að heyra staðfestingu þess að Framsóknarflokkurinn leggur enn mikla áherslu á að setja gott auðlindaákvæði í stjórnarskrána.

Á 136. löggjafarþingi var lagt fram 385. mál á þskj. 648. Einn flutningsmanna var Birkir Jón Jónsson fyrir hönd Framsóknarflokksins, aðrir flutningsmenn voru Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón A. Kristjánsson, formenn allra þingflokka sem þá voru hér að störfum annarra en Sjálfstæðisflokksins. Tillagan sem lögð var fram er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við lögin“ — þ.e. við stjórnarskrána — „bætist ný grein svohljóðandi:

Náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign. Ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hefur eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.

Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi.

Allir eiga rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Réttur almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það, svo og kostur á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið, skal tryggður með lögum.“

Frú forseti. Ég var að lesa upp tillögu núverandi varaformanns Framsóknarflokksins. Ég heyri það á orðum hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur að hún er sama sinnis og við vorum öll vorið 2009 þegar við börðumst hér upp undir tvo mánuði fyrir þessu ákvæði, við stóðum saman bak í bak, (VigH: Við erum sammála.) Framsóknarflokkurinn og aðrir þingmenn hér, allir aðrir en Sjálfstæðisflokkurinn. Það er gott að við getum treyst á (Forseti hringir.) fulltrúa Framsóknarflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í þessari baráttu áfram.