141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[10:35]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég get ekki látið hjá líða að blanda mér í umræðuna og vekja athygli á því þegar menn í umræðu um fundarstjórn forseta eru að skrá söguna og reyna að búa sér til nýjar túlkanir á því sem gerðist á sínum tíma. Á þeim tíma var ég formaður fjárlaganefndar og það lá fyrir frá upphafi í fyrsta lagi að við tókum ekki málið fyrir fyrr en búið var að upplýsa um og þýða alla samninga. Það var gengið í það á þeim tíma að birta öll skjöl sem var leyft að birta á netinu jafnóðum. Það voru önnur vinnubrögð í sambandi við þetta mál á þeim tíma þannig að ég bið hæstv. forseta að við fáum að skoða þetta í forsætisnefnd ef menn hafa unnið með þeim hætti sem hér var verið að lýsa.

Það var gefinn nægur tími til að tala við alla þá sem óskað var eftir að fá inn í nefndina, tekinn langur tími í það og til eru ræður þar sem sérstaklega var þakkað fyrir það hversu góður tími var gefinn og hversu ítarlega málið var tekið fyrir og hverjir voru fengnir og kallaðir til. Við skulum ekki búa til svona söguskýringar eða fara í karp hér um þetta. (Forseti hringir.) Við getum tekist á um það annars staðar og reynum ekki að búa til neina nýja mynd af málinu. Þetta er búið að vera erfitt mál, margir hafa komið að því og (Forseti hringir.) þeir sem þar hafa unnið eiga hrós skilið þannig að ég biðst undan því að menn séu að gera okkur upp skoðanir.