141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

breyting á stjórnarskrá vegna EES-samningsins.

[10:39]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra í tilefni af framkomnu frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Í utanríkismálakaflanum segir að ástæða sé til að tryggja stjórnskipulegan grundvöll fyrir frekari þróun EES-samningsins og lagt til að opnað verði fyrir framsal ríkisvalds til stofnana sem við Íslendingar eigum ekki aðild að. Það er látið að því liggja af hálfu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í greinargerð að nauðsynlegt sé að gera þetta.

Í fylgiskjölum með nefndarálitinu eru rakin ýmis dæmi úr sögunni um að Evrópusambandið hafi knúið fram framsal ríkisvalds, t.d. er minnt á hvernig þetta gerðist við setningu nýrra samkeppnislaga árið 2005. Þá er nauðsynlegt að hafa í huga að í lögfræðiáliti um það framsal kom fram að það gengi upp gagnvart stjórnarskrá þar sem byggt væri á samningi sem kvæði á um gagnkvæm réttindi og skyldur. Sama má segja um fjölmörg önnur tilvik þar til við komum að skráningarkerfi fyrir losunarheimildir þar sem nýlega reis ágreiningur í þinginu um það hvort verið væri að ganga of langt. En enginn ágreiningur er í þinginu um að eftirlit með fjármálamörkuðum, þ.e. banka-, trygginga-, lífeyrissjóða-, verðbréfa- og fjármálaeftirlitið sem Evrópusambandið hyggst núna koma á fót, krefst framsals sem er utan heimilda núverandi stjórnarskrár. Þetta virðist hafa gefið meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar tilefni til að leggja til að í stjórnarskrá komi nýtt ákvæði þar sem við Íslendingar föllumst á, að kröfu Evrópusambandsins, að hverfa frá tveggja stoða kerfinu.

Nú vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvers vegna í ósköpunum eigum við að gera breytingar á stjórnarskrá okkar út af kröfu Evrópusambandsins sem á sér engan samningslegan grundvöll í EES-samningnum? Sá samningur er tveggja stoða samningur þar sem við gerum áskilnað um að engin völd verði færð til stofnana annarra en þeirra sem við eigum fulla aðild að. Er ekki stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á algerum villigötum (Forseti hringir.) með því að tala um að við þurfum að grípa til þessa úrræðis, breytinga á stjórnarskránni með þessum hætti, til að stuðla að einhverri eðlilegri þróun EES-samningsins?