141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

breyting á stjórnarskrá vegna EES-samningsins.

[10:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það sem hæstv. utanríkisráðherra er að segja er að það sé í lagi fyrir okkur að eiga í alþjóðasamstarfi þar sem ekki gilda gagnkvæm réttindi og skyldur, að við eigum að taka þátt í alþjóðasamstarfi þar sem við stöndum ekki jafnfætis þeim sem með okkur starfa, að það sé ásættanlegt fyrir okkur að taka þátt í alþjóðasamstarfi þar sem við höfum á engan hátt aðkomu að ákvörðunum og ekki einu sinni aðild að þeim stofnunum sem fara með endanlegt vald í málum sem við höfum undirgengist samkvæmt samningunum.

Þetta er grundvallarbreyting á EES-samstarfinu og það er rangt að mínu mati hjá hæstv. utanríkisráðherra að EES-samningurinn hafi þróast þannig. Það sem hefur gerst er að Evrópusambandið fer í auknum mæli fram á að allt vald verði fært til stofnana þess en það er fráhvarf frá samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, það er meiri háttar breyting (Forseti hringir.) á samkomulagi sem gert var á sínum tíma. Við eigum ekki að undirgangast það með því að fara í breytingar á stjórnarskránni og segja: Gott og vel, ef þetta er krafa ykkar þá skulum við verða við henni. Það er alger eftirgjöf.