141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

breyting á stjórnarskrá vegna EES-samningsins.

[10:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Á sínum tíma þegar EES-samningurinn var samþykktur í þessum sal var teflt fram mjög sterkum rökum gegn því að hann samrýmdist ekki stjórnarskránni. Nefnd fjögurra vísra manna var fengin til að skoða það og menn komust að þeirri niðurstöðu að hann væri á gráu svæði. Eigi að síður voru það flokkur hv. þingmanns og minn flokkur sem höfðu forgöngu um að samþykkja aðildina.

Síðan hefur EES-samningurinn breyst verulega og ég er þeirrar skoðunar að í mörgum atriðum sé hann kominn út fyrir það sem heimilt er samkvæmt stjórnarskránni. Það er skoðun sem ég hef flutt þinginu mörgum sinnum. Ég hef sérstaklega varað utanríkismálanefnd við í tveimur tilvikum þar sem ég hef bókstaflega verið ósammála stjórnskipunarsérfræðingum sem nefndin og hv. þingmaður tóku hins vegar gilda. Hv. þingmaður veit mitt svar við þessu. Ég tel, vegna þess hvernig þetta hefur þróast, að það sé miklu hreinlegra fyrir okkur að ganga í Evrópusambandið.

En að síðustu er spurningin sem hv. þingmaður beindi til mín í grundvallaratriðum þessi: Er þetta veruleg breyting (Forseti hringir.) frá því sem var? Svarið er já. Þarna er um verulega breytingu að ræða frá þeim EES-samningi sem við gerðumst aðilar að. Það er rétt hjá hv. þingmanni. Ég tel hins vegar að ef við ætlum að halda áfram (Forseti hringir.) þessu samstarfi og göngum ekki í Evrópusambandið þá verðum við að gera þetta. Annað væri óhallkvæmt fyrir Ísland. (Gripið fram í.)