141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

tilraunir flóttamanna til að komast í skip.

[10:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Stutta svarið er þetta: Við höfum brugðist við og ætlum að bregðast við hvað þetta snertir en munum að sjálfsögðu aldrei gera það á kostnað mannréttinda. Við viljum tryggja öryggi í flutningum á milli Íslands og annarra landa og þá ekki síst Bandaríkjanna þar sem mjög stífar kröfur eru reistar hvað þetta snertir. Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir Ísland að vel sé að verki staðið og ég tel að við séum að gera það.

Þrátt fyrir ítrekaða fundi hefur ekkert gerst, segir hv. þingmaður. Það er rangt. Það hefur verið farið yfir alla verkferla. Við höfum átt í viðræðum við bandarísk yfirvöld, sent frá okkur erindi til þeirra og bíðum nú svara. Auk þess hefur löggjöf sem lýtur að refsingum hvað varðar óheimilan aðgang að höfnum og flugvöllum verið endurskoðuð. Ég geri þar tillögu um að samræma refsingar hvað þetta snertir en það er engin lína dregin á milli fólks, hvort sem eru hælisleitendur eða aðrir einstaklingar, heldur er eitt látið yfir alla ganga. Við tökum á þessum málum af mikilli ábyrgð. Við eigum í ágætum viðræðum við bandarísk yfirvöld. Það er því rangt að andvaraleysi sé sýnt í þessum málum. Það er vel haldið á málstað Íslands.