141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

orð forseta Íslands um utanríkismál.

[10:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eftir hrun hef ég tekið eftir því að utanríkisþjónustunni hefur bæst ötull liðsmaður, þ.e. forseti Íslands. Í baráttunni við Icesave, sem er utanríkismál, dáðist ég oft að því hvernig hann kom fram í erlendum fjölmiðlum og varði málstað Íslands. Ég varð ekki var við slíka tilburði hjá hæstv. utanríkisráðherra eða hjá utanríkisþjónustunni.

Svo gerist það nú að forsetinn lýsir því yfir í viðtali við Bloomberg 14. desember að hann ætli að stofna olíusjóð á Íslandi. Mér þótti það ekki slæm hugmynd. Svo kemur hann í Davos og ræðst á Gordon Brown og segir að Íslendingar muni aldrei fyrirgefa honum. Það segir hann í viðtali við Sky. Ég var í sjálfu sér ósköp sáttur við það. En ekki hefur heyrst neitt frá hæstv. utanríkisráðherra. Svo segir hann 23. janúar í Bloomberg að aðild að ESB sé ekki forsenda hagsældar. Ég er hjartanlega sammála því. Ég er að mörgu leyti sammála þessum ötula liðsmanni hæstv. utanríkisráðherra.

Spurningin er hvort þetta fari saman, stefna þessa ötula liðsmanns sem hefur náð meiri dreifingu á boðskap sínum en nokkur annar kjörinn fulltrúi á Íslandi, að ég fullyrði, og stefna ríkisstjórnarinnar. Hvernig líst hæstv. utanríkisráðherra á þennan ötula liðsmann í utanríkisþjónustunni? Er þessi stefna í samræmi við utanríkisstefnu Íslands og íslensku ríkisstjórnarinnar? Ég vil spyrja að því.

Nú vill svo til að forseti Íslands virðist hafa þjóðina á bak við sig í öllum sínum málum. Ég minnist ekki á Icesave, ég þarf þess ekki, þar stóð þjóðin einhuga að baki forseta Íslands. Ég tel í sambandi við Evrópusambandið að við græðum ekkert á því að fara þangað inn og að við munum aldrei fyrirgefa Gordon Brown (Forseti hringir.) standi íslenska þjóðin líka að baki forseta Íslands en ekki að baki hæstv. utanríkisráðherra.